Menntun fótaaðgerðafræðinga

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 18:32:07 (6932)

2004-04-27 18:32:07# 130. lþ. 104.18 fundur 808. mál: #A menntun fótaaðgerðafræðinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[18:32]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessar umræður sem hér hafa verið um þetta mál. Vera kann að svör mín hafi ekki eytt allri óvissu í þessum efnum vegna þess, eins og kom fram, að ég er þeirrar skoðunar að við ættum að bíða haustsins í þessu efni. Auðvitað markast svör mín af því að þetta mál heyrir að nokkuð miklu leyti til undir annað ráðuneyti þó að um heilbrigðisstétt sé að ræða.

Varðandi möguleikana á að vista þetta nám þá hef ég ekki fastmótaða skoðun á því. Ég er opinn fyrir ýmsum möguleikum í því sambandi, t.d. framhaldsskólum. Það getur alveg komið til greina. Og einkaskólar gætu alveg komið til greina, eins og fyrirspyrjandi sagði. Ég er opinn fyrir öllum slíkum hugmyndum og mun hlusta á þær. En forræði þessa máls er að nokkuð miklum hluta í menntmrn. eins og ég sagði og svör mín hljóta að markast af því að við tölum ekki fyrir hönd annarra ráðuneyta eða annarra ráðherra í þessum efnum.