Tannheilsa barna og lífeyrisþega

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 18:34:18 (6933)

2004-04-27 18:34:18# 130. lþ. 104.19 fundur 826. mál: #A tannheilsa barna og lífeyrisþega# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[18:34]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Hæstv. forseti. Í óundirbúinni fyrirspurn nýlega svaraði hæstv. heilbrrh. fyrirspurn hv. þm. Þuríðar Backman um tannheilsu barna. Ég hafði þá lagt fram munnlega fyrirspurn um tannheilsu barna og lífeyrisþega. Ráðherra vísaði bara í rannsókn í undirbúningi á tannheilsu barna og svo hvatti hann börn til að hirða tennurnar og nota flúortannkrem. Miðað við þessi svör fannst mér fullkomlega ástæðulaust að draga fyrirspurn mína til baka. Mér fannst hæstv. ráðherra skulda þinginu gleggri svör um málið en þau sem hann gaf um daginn.

Það hefur komið fram að barnalæknir og sérfræðingur í samfélagstannlækningum segir að hópur íslenskra barna búi við tannskemmdir, sársauka og sýkingar sökum þess að foreldrar þeirra hafi ekki efni á að fara með þau til tannlæknis og því stefni í tvískipt tannheilbrigðiskerfi hér á landi. Þetta eru alvarlegar athugasemdir sem hæstv. heilbrrh. og þingið verða að taka alvarlega. Raunar undrar mig ekki að svo sé komið að við stefnum í tvískipt tannheilbrigðiskerfi þar sem fólk hefur ekki jafnan aðgang óháð efnahag.

Um daginn vöruðum við hér við tvískiptu heilbrigðiskerfi almennt þar sem gjaldtaka í heilbrigðiskerfinu væri orðin alvarleg aðgangshindrun. Virtur prófessor hefur haldið því fram að gild rök megi færa fyrir því að útgjöld sjúklinga hér á landi séu komin á varasamt stig og farin að bitna á aðgengi í heilbrigðisþjónustunni. Nú eru rannsóknir þarfar en ég held að þegar liggi fyrir þær staðreyndir í málinu sem duga til að hæstv. ráðherra geti ekki varið það að bíða þar til viðamikil rannsókn hefur verið gerð. Það getur tekið langan tíma.

Í nýlegri niðurstöðu rannsóknar sem formaður tannverndarráðs hefur kynnt kemur fram að 30% 16 og 17 ára unglinga fara ekki til tannlæknis og 50% þriggja ára barna fari ekki heldur til tannlæknis. Leiða má að því líkur, eins og sérfræðingurinn í samfélagstannlækningum gerði, að fólk hafi ekki efni á að fara til tannlæknis.

Nú hlýtur hæstv. ráðherra að horfa til þeirra sjónarmiða sem tryggingayfirlæknir hefur að segja um þetta mál. Skoðun hans sem komið hefur fram opinberlega er sú að ef hægt eigi að vera að ætlast til þess að allir forráðamenn barna fáist til að fara með börn sín reglulega til tannlæknis þurfi að semja aftur um fasta gjaldskrá og hækka um leið endurgreiðsluna í 100% fyrir börn. Tryggingatannlæknir vill líka að sjúkratryggingar taki þátt í tannlæknakostnaði eins og í öðrum sjúkleika. Hann hefur beint því til ráðherra hvort ekki sé orðið tímabært að taka nú fyrstu skrefin og auka þátttöku sjúkratrygginga í tannkostnaði lífeyrisþega og segir að það geti ekki verið boðlegt árið 2004 að greiða ekki fyrir krónur og brýr lífeyrisþega og að það sé okkur til vansa að þetta ákvæði skuli enn standa óbreytt eftir 30 ár.

Loks nefnir tryggingatannlæknir að næstu skrefin ættu að vera að hækka endurgreiðslualdurinn sem fyrst í 20 ár til samræmis við hin Norðurlöndin. Ég hef því leyft mér að flytja fyrirspurn um þetta efni til hæstv. heilbrrh.