Tannheilsa barna og lífeyrisþega

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 18:37:36 (6934)

2004-04-27 18:37:36# 130. lþ. 104.19 fundur 826. mál: #A tannheilsa barna og lífeyrisþega# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[18:37]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Virðulegi forseti. Til mín hefur verið beint þremur fyrirspurnum um tannheilsu barna og lífeyrisþega.

,,1. Er ráðherra samþykkur því að lítil þátttaka ríkisins í tannlæknakostnaði sé farin að bitna alvarlega á tannheilsu barna efnalítilla foreldra?``

Það er mikilvægt að byggja stefnumótun í heilbrigðismálum á staðreyndum og þekkingu. Eins og er vitum við ekki með vissu hvernig tannheilsu landsmanna er háttað. Því hefur verið ákveðið að hrinda af stað landskönnun á munnheilsu þjóðarinnar. Í fyrsta áfanga hennar munu 6, 12 og 15 ára börn og unglingar verða skoðuð. Þegar niðurstöður úr þeirri rannsókn liggja fyrir verður hægt að svara því hvernig tannheilsa barna er á Íslandi í dag. Jafnframt verður hægt að svara þeirri spurningu hv. þm. hvort tannheilsa barna efnalítils fólks sé verri en annarra barna.

,,2. Hvað hyggst ráðherra gera til úrbóta og er hann sammála tryggingayfirtannlækni um að tannlæknakostnaður barna verði endurgreiddur að fullu?``

Eins og áður segir bíðum við niðurstöðu rannsóknarinnar áður en við ákveðum hvort úrbóta er þörf. Við væntum góðrar samvinnu foreldra barna við að svara spurningum á lista sem verður dreift til þeirra sem valdir verða í slembiúrtak rannsóknarinnar. Það er brýnt að fá góða svörun til að niðurstöður verði marktækar og hægt verði að byggja á þeim áhættumat.

Ef reyndin verður svipuð því er gerist í nágrannalöndum okkar þá er aðeins lítill hluti barnanna með meiri hluta tannsjúkdómanna svo sem tannskemmdir og glerungseyðingu og við þurfum að geta metið hverjir eru í mestri áhættu til að fjármagnið til að hjálpa þeim nýtist sem best.

Varðandi það að endurgreiða tannlæknakostnað barna að fullu eins og haft var eftir yfirtryggingatannlækni í fjölmiðlum þá lét hann þar í ljós sína persónulegu skoðun en ekki ákvörðun heilbrigðisyfirvalda. Kostnaðarhlutdeild sjúklinga er að finna á nær öllum sviðum heilbrigðiskerfisins og það er ekki stefna okkar í ráðuneytinu að breyta því endurgreiðslukerfi sem nú er við lýði vegna tannlækninga.

,,3. Er ráðherra reiðubúinn að rýmka þær reglur sem gilda um greiðsluþátttöku í tannlæknakostnaði lífeyrisþega?``

Fagfólk innan ráðuneytisins hefur bent mér á að ákvæði í almannatryggingalögum sem hamla endurgreiðslu til lífeyrisþega vegna krónu- og brúargerðar hjá ellilífeyris- og örorkuþegum samræmist ekki breyttum aðferðum í nútímatannlækningum og stefnumörkun ráðuneytisins í tannverndarmálum þar sem áhersla er lögð á að gera eldri borgurum kleift að viðhalda heilbrigði munnhols eins lengi og mögulegt er. Ég er tilbúinn að skoða hvað slík breyting mundi kosta og mun beita mér fyrir því nú á næstunni. En ljóst er að til þess að hrinda því í framkvæmd þarf að breyta lögum um það efni.