Tannheilsa barna og lífeyrisþega

Þriðjudaginn 27. apríl 2004, kl. 18:42:07 (6936)

2004-04-27 18:42:07# 130. lþ. 104.19 fundur 826. mál: #A tannheilsa barna og lífeyrisþega# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 104. fundur, 130. lþ.

[18:42]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin og fagna því að hæstv. ráðherra er reiðubúinn að skoða það að rýmka eða skoða þær reglur sem gilda um greiðsluþátttöku í tannlæknakostnaði lífeyrisþega og huga að kostnaði við þær. Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að það kallar á lagabreytingar. En ráðherrann er greinilega opinn fyrir því að skoða þessar breytingar. Því ber að fagna og ég vona að við sjáum þá frv. um það efni á komandi haustþingi.

En ég er gersamlega ósammála hæstv. ráðherra um eitt og finnst það hreint og klárt vera undansláttur hjá hæstv. ráðherra þegar hann vitnar í að fara þurfi í rannsóknir til að skoða hvort hægt sé að auka þátttöku ríkisins í tannlæknakostnaði barna og unglinga. Fyrir liggja þær rannsóknir sem ég vitnaði til sem formaður tannverndarráðs kynnti nýlega og þegar við ræðum tannskemmdir 16--17 ára unglinga þá er töluvert mikið þegar 30% 16 og 17 ára unglinga og 50% þriggja ára barna sem fara til tannlæknis eru með tannskemmdir. Mér finnst þetta verulega hár hluti og sérfræðingur hæstv. ráðherra eða sá sérfræðingur sem gerst ætti að þekkja til tannlækninga, þ.e. tryggingayfirtannlæknir, telur að það eigi strax að semja um það að hækka endurgreiðslur í 100% fyrir börn. Þess vegna finnst mér að hæstv. ráðherra hljóti að eiga að taka meira mark á tryggingatannlækni en raun ber vitni, en ráðherra vísar í það að afstaða hans sé ekki afstaða ráðherrans eða ráðuneytisins.

Svo er það það sem hv. þm. Jónína Bjartmarz nefndi. Ég tek undir áhyggjur af verði því sem fram kemur á gjaldskrá tannlækna og vil spyrja hæstv. ráðherra hvað sé að gerast í því máli. Er engin hreyfing á því að hægt sé að ná samkomulagi við tannlækna þannig að verðlagningu sé ekki háttað eins og við þekkjum?