Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 14:03:04 (6946)

2004-04-28 14:03:04# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[14:03]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Frú forseti. Ég vil leyfa mér að óska hæstv. menntmrh. til hamingju með að hafa fundið nýjan leiðtoga í lífi sínu þar sem er núverandi forseti lýðveldisins. Ég vildi óska að Sjálfstæðisflokkurinn hefði haft hann betur í huga þegar hann var að skipuleggja heimastjórnarafmælið fyrr í vetur.

Frú forseti. Ég tek undir það með hæstv. ráðherra að skýrslan sem hér er til umræðu er prýðilega unnin. Hún er vönduð og ítarleg og á grundvelli hennar væri hægt að setja góð lög. Hins vegar er ýmislegt í lögunum sem ekki er að finna í skýrslunni. Og það er margt mikilvægt í skýrslunni sem því miður kemur ekki fram í frumvarpinu. Meginniðurstaða skýrslunnar er að mínu mati umfjöllun skýrsluhöfunda um afturvirk lög. Þeir gjalda varhuga við því að sett verði afturvirk lög. Þeir taka svo til orða að ef fjölmiðlar þurfi að breyta uppbyggingu sinni með kostnaðarsömum og þungbærum hætti til að laga sig að lagareglum sem kynnu að verða settar þá gætu risið álitamál varðandi stjórnarskrá, bæði varðandi frelsi til atvinnu og líka ákvæði um vernd eignarréttar. Þess vegna gjalda þeir varhuga við þessu, eða eins og segir um slík lög í skýrslunni, með leyfi forseta:

,,Af þessum ástæðum yrði því fyrst og fremst að horfa til áhrifa þeirra til framtíðar.``

Nú liggur hins vegar fyrir, miðað við það frv. sem búið er að samþykkja, m.a. af hæstv. menntmrh., að eitt tiltekið fyrirtæki, Norðurljós, þarf að endurskipuleggja sig með þungbærum og kostnaðarsömum hætti. Það dylst engum að í tilviki þess yrðu lögin afturvirk. Ég spyr því hæstv. menntmrh.: Hvers vegna í ósköpunum var ekki farið eftir þessari meginniðurstöðu skýrslunnar?