Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 14:11:02 (6950)

2004-04-28 14:11:02# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), SigurjÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[14:11]

Sigurjón Þórðarson (andsvar):

Frú forseti. Það kom fram hjá hæstv. ráðherra að markmið skýrslunnar væri að finna leiðir til að tryggja lýðræðið. Í framhaldi af því vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort ekki væri rétt að forgangsraða þessum verkefnum. Eru ekki önnur verkefni brýnni fyrir okkur sem störfum í stjórnmálaflokkum?

Ég vil nefna hvort ekki beri að opinbera fjármál stjórnmálaflokka. Þau eru lokuð bók og þetta lokaða bókhald býður upp á spillingu. Það hefur m.a. komið fram í þessari umræðu að einn æðsti embættismaður þjóðarinnar hefur haldið því fram að það hafi verið borið á hann fé. Mér finnst það eitt af forgangsverkefnum okkar sem hér störfum að opna bókhald stjórnmálaflokka til að tryggja lýðræðislega umræðu. Fróðlegt væri að heyra svör hæstv. menntmrh., hvað hún segir við þessu, hvort það ætti ekki að koma á undan því verkefni sem við erum að fást við núna. Mér virðist ekki liggja svo mikið á að ganga í þetta verkefni. Við eigum að taka góðan tíma í að finna umgjörð um þessa starfsemi, sem er mjög mikilvæg. Þess vegna væri fróðlegt að heyra hvort fjármál flokkanna verði ekki forgangsverkefni. Það hefur ítrekað komið fram í umræðunni að þetta lokaða bókhald stjórnmálaflokka býður óumdeilanlega upp á spillingu.