Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 15:02:05 (6970)

2004-04-28 15:02:05# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), félmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[15:02]

Félagsmálaráðherra (Árni Magnússon) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það mætti ætla af umræðunni í dag að ekkert megi gera öðruvísi en fordæmi séu fyrir því og enga skoðun megi hafa sem er sjálfstæð. Því er til að svara, hv. þm. Mörður Árnason, að ég hef mínar skoðanir. Og af því að vitnað var til þeirra ummæla minna áðan að fyrirsagnir dagblaðanna væru athyglisverðar þessa dagana, vil ég, með leyfi forseta, fá að sýna þingheimi opnu í DV í dag sem mér finnst kannski segja það sem segja þarf, þar sem brugðið er upp ljósi af forsætisráðherra þjóðarinnar í einhvers konar spegli Kim Il Sungs, sem var ráðandi aðili hér austur af okkur á sinni tíð, og fyrirsögnin er: ,,Okkar ástkæri leiðtogi, Davíð Oddsson.`` Kjarvalsstaðir, hæstv. forseti, með leyfi þínu, verða ,,Davíðsstaðir``. ,,Davíðs þúsund ár``, þar er búið að staðfæra þjóðsönginn okkar, fjallað um söngleik um fæðingu Davíðs, og þetta gerist nokkrum dögum eftir að ríkisstjórnin ákveður að setja lög sem hamla gegn því eignarhaldi í fjölmiðlum sem staðreynd er í samfélagi okkar.