Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 15:05:20 (6973)

2004-04-28 15:05:20# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), HHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[15:05]

Helgi Hjörvar (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð að byrja á því að harma þær aðdróttanir að starfsheiðri tuga ef ekki hundruða fjölmiðlamanna sem hæstv. félmrh. lét sér sæma að hafa uppi í ræðu sinni. Ég held að það hæfi ekki virðingu hins háa Alþingis að vega með þeim hætti að heilli stétt manna.

Ég hlýt hins vegar að kalla eftir því þegar hæstv. félmrh. leggur alla áherslu, eðlilega, á nauðsyn fjölbreytni í íslenskri fjölmiðlun, hvort nokkru sinni í sögu Íslands hafi verið meiri fjölbreytni í fjölmiðlun, fleiri fjölmiðlar, fleiri fjölmiðlamenn og breiðara litróf skoðana en einmitt í dag, einmitt árið 2004, eða hvort hæstv. félmrh. geti nefnt okkur annan tíma í Íslandssögunni þar sem meiri fjölbreytni hafi ríkt í þeim efnum. Og hins vegar hvort hæstv. félmrh. geti bent okkur á eitt málsvæði af okkar stærðargráðu, um 300 þúsund manna, sem einhvern tíma í veraldarsögunni hefur státað af gróskumeiri og fjölbreyttari fjölmiðlun en við Íslendingar búum við og njótum í dag. Geti hæstv. ráðherra ekki bent á dæmin um það að einhvers staðar sé meiri og eftirsóknarverðari fjölbreytni hlýtur maður að spyrja hvort allur þessi málatilbúnaður standi ekki, virðulegur forseti, á hreinum brauðfótum.