Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 16:06:22 (6989)

2004-04-28 16:06:22# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[16:06]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst vil ég segja vegna þess sem hv. þm. sagði um kostnað við uppbyggingu stafræns útvarps og sjónvarps að það liggur alveg fyrir að sjónvarps- og útvarpsfyrirtækin verða, hvað sem líður annarri löggjöf, að innleiða þessa tækni. Þau standa frammi fyrir því að þurfa að endurnýja búnað sinn, sum eru búin að því að hluta og önnur hafa tekið ákvarðanir um að undirbúa það. Sú stefnumótun sem ég kynnti í ræðu minni og varðar stafræna útvarps- og sjónvarpstækni mun auðvelda fyrirtækjunum, í sjónvarpsrekstri sérstaklega, mjög að takast á við fjárfestinguna vegna þess að við gerum ráð fyrir því kerfi að þar taki fyrirtækin höndum saman um þessa uppbyggingu. Ég held að það sé afar mikilvægt.

Hvað varðar þá spurningu og þær vangaveltur hv. þingmanns um frv., sem réttilega er ekki sérstaklega til umræðu hér, er samt lykilinn að því öllu saman að finna í þeirri skýrslu sem hér er til umfjöllunar. Formaður fjölmiðlanefndarinnar hefur fjallað sérstaklega um það í sjónvarpsfréttum og ég veit að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hefur fylgst með því. Hins vegar er ekki tekið á öllum þáttum í frv. sem fjallað er um í skýrslunni. Það er alveg deginum ljósara. Engu að síður er tekið á aðalatriðunum. Samkeppnislöggjöfin kemur þar við sögu og hún mun að sjálfsögðu leika mjög mikilvægt hlutverk í því að tryggja eðlilegar aðstæður á þessum markaði hvað varðar eignarhald á fjölmiðlum.