Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 16:08:23 (6990)

2004-04-28 16:08:23# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[16:08]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég fagna því að hæstv. ráðherra tekur af skarið og segir að mikilvægir þættir í skýrslunni sem við erum að ræða hér í dag hafi ekki komist inn í frv. Það skiptir ákaflega miklu máli. Má ég þá spyrja hæstv. ráðherra hvort það sé ætlan ríkisstjórnarinnar að setja síðar önnur lög sem tryggja ýmislegt sem þar er bent á?

Það er líka alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að það er ýmislegt í skýrslunni sem hefði hugsanlega átt að rata inn í frv. Það segir t.d. í niðurstöðukaflanum að ein leið sem hægt hefði verið að fara til að tryggja fjölbreytni væri að styrkja íslenska Ríkisútvarpið. Það er klykkt út með því í liðum c og d þar sem um það er fjallað að ef það væri gert væri hægt að ná markmiðunum sem skýrsluhöfundar setja sér án þess að takmarka starfsemi eignaraðila og án þess að ráðast í miklar lagasetningar. Það hlýtur að gleðja klassíska frjálshyggjumenn sem hér eru í salnum, t.d. hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson. Þetta er alveg eins og sniðið eftir þeim hugmyndum sem hann hefur sjálfur sett fram.

Að því er varðar fjölbreytnina og möguleika fyrirtækja á því að byggja sig upp á krafti nýrrar tækni er athyglisvert að hæstv. ráðherra sagði að endurnýjun búnaðar mundi kosta mikið fjármagn. Nú er það svo að við höfum giska góðar sjónvarpsstöðvar sem m.a. formaður Samf. horfir á, hugsanlega allt of langt fram eftir hverri nóttu, eins og Skjá 1. Við höfum fregnir af því að það ágæta fyrirtæki skorti fjármagn til að byggja sig upp. Óneitanlega hlýtur það að draga úr líkunum á því að þetta fyrirtæki finni það fjármagn ef lög útiloka að það geti leitað til stöndugustu fyrirtækjanna á Íslandi. Er ekki hæstv. ráðherra þar með sammála mér um að það séu líkur á því að ef frv. verði að lögum dragi það hugsanlega úr fjölbreytni í framtíðinni þegar þessi stafræna tækni verður fram komin?