Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 16:26:43 (6993)

2004-04-28 16:26:43# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[16:26]

Mörður Árnason (andsvar):

Forseti. Ég held að þetta sé rétt hjá síðasta ræðumanni og biðst afsökunar á því. Þetta mun vera annar Páll Magnússon, ég hef mislesið þetta, þetta er Páll Magnússon sem nú er reyndar fréttastjóri á einum þeirra miðla sem mest er talað um hér.

Framsfl. á sum sé engan hlut að þessari skýrslu og er laus undan þeim ásökunum hér með. Það eru aðeins Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, formaður útvarpsráðs, Tómas Ingi Olrich, fyrrverandi menntmrh., Ásdís Halla Bragadóttir, bæjarstjóri Sjálfstfl. í Garðabæ, og starfsmaður nefndarinnar, Jónmundur Guðmarsson, bæjarstjóri Sjálfstfl. á Seltjarnarnesi, sem sögðu m.a. þetta hér árið 1996:

,,Þessi skoðun,`` --- þ.e. að ekki sé brýnt að takmarka eignarhald í ljósvakamiðlum --- ,,er og sett fram í ljósi þeirrar staðreyndar að lög af þessu tagi hafa í nágrannalöndunum oftar en ekki orsakað nokkurn glundroða. Það hefur reynst fremur auðvelt að fara í kringum slík lög, eftirlit kostnaðarsamt og þó að þeim sé ætlað að vernda athafnafrelsi og hlutleysi virðast þau stundum hafa skert atvinnufrelsið á ósanngjarnan hátt ...``

Ég bið menn að taka eftir síðustu orðunum, forseti, með leyfi:

,,... og jafnvel beinst gegn einstökum aðilum.``

Á næstu síðu í þessum kafla, 11. kafla, segir svo:

,,... að það sé ákjósanlegra að samkeppni á ljósvakamarkaði í heild lúti sömu almennu leikreglum og aðrar atvinnugreinar í landinu, en til að mynda væri mögulegt,`` segja skýrsluhöfundarnir sem ég ætla ekki að telja upp enn einu sinni ,,að styrkja með einhverjum hætti lagalega framkvæmd við úthlutun útvarpsleyfa þannig að stuðlað verði að fjölbreyttri samkeppni.``

Þau eru sem sagt að óska eftir þáltill. þeirri sem hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir, sá sem hér stendur og fleiri samfylkingarmenn lögðu fram á þingi í vetur, hefur reyndar ekki komist hér í umræðu enn þá sem er mikill skaði og ég bendi forseta hér með á. Ég spyr: Er hv. síðasti ræðumaður sammála þessu eða ekki?