Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 16:29:34 (6995)

2004-04-28 16:29:34# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[16:29]

Mörður Árnason (andsvar):

Forseti. Ég ætla ekki að fara að deila við hv. ræðumanninn um það hversu miklar rannsóknir liggja þessu að baki. Eins og ég segi hef ég ekki hingað til verið mjög sammála þessari skýrslu í sjálfu sér sem var um endurskoðun á útvarpslögum og komst að ýmsum niðurstöðum hvað varðar Ríkisútvarpið. Ég tel þó að þau hafi lagt sitt af mörkum hér, þau hafa rannsakað ástandið í Frakklandi, Spáni, Belgíu, Þýskalandi, Hollandi, Bretlandi, Ítalíu og Lúxemborg og komist að því að lögin skiptist í fjóra höfuðflokka í þessum löndum.

Þau vita vel af því að þetta er með ýmsum hætti eins og við höfum kynnst hérna, sem betur fer, undanfarið í hverju landi fyrir sig. Þau hafa komist að því, eins og við í Samf., að hér á landi, við íslenskar aðstæður, þær sem hér ríkja með okkar örsmáa markað og okkar sterka, sem betur fer, Ríkisútvarp, sé ekki ástæða til þess arna nema --- sem þau segja reyndar ekki en við segjum --- sérstakt neyðarástand komi upp. Og hvar er það neyðarástand? Eftir því hef ég verið að spyrja og aðrir samfylkingarmenn hér og stjórnarandstæðingar í allan dag, þá sem ætla sér að standa að þessu frv. Enn þá hefur ekki birst neitt neyðarástand nema það neyðarástand sem er alveg svakalegt og mikil vá fyrir okkar dyrum, búandkarla hér á Íslandi, að dagblaðið DV skuli hafa leyft sér að gera grín að sjálfum forsætisráðherra Íslands hæstvirtum, Davíð Oddssyni, og það á sjálfu hæstvirtu heimastjórnarafmælinu og það í opnunni, tveimur síðum og ég veit ekki hvað mörgum dálksentímetrum. Ég held, því miður, forseti, að við bönnum ekki slíkt með lögum. Hins vegar er eitt ráð og ég bið t.d. hv. þm. Sigurð Kára Kristjánsson sem ætlar að tala hér á eftir að íhuga það. Það er gamalt ráð úr smiðju okkar jafnaðarmanna sem við höfum að vísu hent á öskuhaug sögunnar, og það er að þjóðnýta þessa fjölmiðla, búa til ríkisdagblaðið sem Guðrún Helgadóttir talaði hér um fyrir nokkrum árum. Það skaltu gera, Sigurður Kári, og það getur þú tekið til við líka, Magnús Stefánsson, hv. þingmenn.