Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 16:31:44 (6996)

2004-04-28 16:31:44# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[16:31]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vona að sá hv. þm. sem stóð hér á undan mér nái að róa sig niður og halda sig á jörðinni í þessari umræðu. Í lok ræðu sinnar ágætrar skilgreindi hv. þm. tímana, kallaði þá tíma Davíðs Oddssonar, talaði um geðþótta og annað slíkt. Ég leyfi mér að segja að í Samf. eru greinilega tímar mótsagna vegna þess að hér var haft á orði að jafnaðarmenn hefðu haft mikinn áhuga á fjölmiðlum og hefðu markað sér mjög skýra stefnu í málefnum fjölmiðlanna, þar á meðal Ríkisútvarpsins. Ég er að velta fyrir mér hvenær það hafi gerst. Það vill svo til að fimmtudaginn 4. mars árið 2004 sat ég í sjónvarpssal með þessum hv. þingmanni þar sem við vorum að ræða frv. sem ég og fleiri hv. þm. fluttum um einkavæðingu á ríkissjónvarpinu. Þar var hv. þm. spurður hver stefna hans í málefnum ríkissjónvarpsins væri og þingmaðurinn svaraði, með leyfi forseta:

,,Nei, ég satt að segja, á ég að segja þér, ég hef ekki viljað gera það vegna þess að ég held að þetta verði að lokum einhvers konar samkomulag og ég hef ekki viljað að ég eða við samfylkingarmenn værum með of skýra stefnu í þessu.``

Aftur er hann spurður af hverju og þá svarar hann:

,,Það er ósköp einfalt, vegna þess að bara, það eru fjölmargir möguleikar og það borgar sig ekki að hafa of skýra stefnu.``

Með öðrum orðum hefur Samf. ekki og vill ekki hafa skýra stefnu í málefnum fjölmiðlanna, þar á meðal Ríkisútvarpsins, vildi það a.m.k. ekki þann 4. mars árið 2004 og þá hlýtur maður að spyrja sig: Þegar svona yfirlýsingar koma fram í opinberum fjölmiðlum, er eitthvað að marka þann málflutning sem hér hefur komið fram? Og ég hlýt að spyrja líka: Hvenær kom þessi skýra stefna fram sem hv. þm. lýsir hér úr ræðustól hv. Alþingis? Hún lá a.m.k. ekki fyrir þann 4. mars sl.