Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 18:13:21 (7002)

2004-04-28 18:13:21# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[18:13]

Mörður Árnason (andsvar):

Forseti. Mér heyrðist hv. þm. vera að tala úr allt öðrum aðstæðum en nú eru uppi og um allt annað frv. en hér liggur frammi. Það verður að vera svo, enda hygg ég að hv. þm. sé óvenjulítið sammála frv. af hálfu stjórnarflokkanna.

Að gefnu tilefni langar mig að spyrja hvort hv. síðasti ræðumaður hafi staðfest dæmi um það sem hún hélt fram úr ræðustólnum að Baugsfyrirtækin hefðu hagstæðari auglýsingasamninga við miðla Norðurljósa en önnur fyrirtæki? Menn verða að finna orðum sínum stað, líka úr þessum stóli. Það er hættan við þetta. Þess vegna er hin spurningin sú: Bíddu nú við. Það kann að vera að frv. útiloki þessa stöðu í eignatengslum. En hvað í því frv. sem ríkisstjórnin hefur sameinast um útilokar áhrif auglýsenda á ritstjórn að öðru leyti? Vegna þess að auglýsendur þurfa ekki að vera eigendur fyrirtækis til þess að geta haft á það mikil áhrif eins og allir kunna dæmi um sem hafa starfað í fjölmiðlum.