Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 18:15:35 (7004)

2004-04-28 18:15:35# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), MÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[18:15]

Mörður Árnason (andsvar):

Forseti. Ég hef kannski tekið rangt eftir en mér heyrðist --- og spyr um það --- hv. þingmaður halda því fram að Baugur hefði betri auglýsingasamninga við þessa miðla í sinni eigin eigu en önnur fyrirtæki. Ef það var ekki biðst ég afsökunar, við skulum bara skoða í þingtíðindum hvað sagt var um það.

Ég spurði líka hvað í frv. --- sem er vissulega hér til umræðu, það er ekkert annað sem við erum að ræða hér vegna þess að það er frv. sem á að pína í gegn og það er ekki óskað eftir neinni annarri umræðu hér í þinginu og í samfélaginu en um þetta frv., og henni einungis til að afgreiða það --- kemur í veg fyrir eða hamlar gegn beinum áhrifum auglýsenda á efni blaðsins, á ritstjórnarstefnu þess. Það er sú spurning sem ég bið hv. þingmann líka að svara hér.