Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 18:24:30 (7013)

2004-04-28 18:24:30# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[18:24]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Á maður að skilja það svo að það hafi ekki einu sinni komið til alvöruumræðu í þingflokki Framsfl. að skoða þessa fyrstu tillögu nefndarinnar sem byggist á því sem ég nefndi áðan, að styrkja fyrst og fremst Ríkisútvarpið og að sú leið gæti meira að segja dugað ein, eins og orðað er í skýrslunni? Þá verð ég að viðurkenna að mér finnst að menn hafi kastað til höndunum í þingflokki Framsfl. ef þessi tillaga, sem er þarna númer eitt færð fram af hálfu nefndarinnar, hefur ekki verið tekin til neinnar alvöruumræðu.

Það hefur líklega sannast í umræðunni í dag, úr því að frv. er tilbúið og á að leggja það fram eins og það liggur fyrir og hefur komið fram í Mogganum --- ég hef nú ekki séð það annars staðar --- að menn hafa ekki tekið þessa skýrslu til neinnar alvöruumræðu í þingflokkunum.