Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 18:25:34 (7014)

2004-04-28 18:25:34# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), JBjart (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[18:25]

Jónína Bjartmarz (andsvar):

Ég vil kannski byrja á því, frú forseti, að vekja athygli hv. þm. Jóhanns Ársælssonar á því að það er búið að dreifa bæði frv. og þessari ágætu skýrslu hérna með þannig að við þurfum ekki að leita að því neins staðar annars staðar.

Í þingflokki Framsfl. og meðal framsóknarmanna var skýrslan mikið rædd og ýmsir möguleikar sem voru þar fyrir hendi. Þó að menn féllust á frv. og væru sáttir við að það væri lagt fram, um að takmarka eignarhaldið, hafa menn ekki útilokað neinar aðrar leiðir.

Nei, ég tel ekki, hv. þingmaður, að það dugi eitt og sér að styrkja Ríkisútvarpið samkvæmt tillögunni. Hún er ein af þeim tillögum sem nefndin leggur fram í sinni ágætu skýrslu. Ég held að meira þurfi að koma til eins og ég sagði áðan. Ég held að líka þurfi að huga að því hver rekstrargrundvöllur þessara einkareknu sjónvarpsstöðva er vegna þess að þær tala sjálfar um að með þessu inngripi veiki það rekstrargrunn þeirra. Mér er umhugað um að hafa fjölbreytnina áfram, að það sé fjölbreytni á þessum einkamarkaði og að það sé samkeppni milli þeirra aðila sem þar eru.