Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 18:29:30 (7017)

2004-04-28 18:29:30# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[18:29]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Virðulegur forseti. Mér finnst hv. þingmaður tala hér á nýjum nótum hvað varðar Framsfl. Mér finnst Framsfl. ekki hafa sýnt okkur sem erum að reyna að hlýða á og átta okkur á stefnunni að hann sé þess fullviss að hægt sé að styrkja Ríkisútvarpið með því að leggja niður afnotagjöldin. Það annað fyrirkomulag á stuðningi við Ríkisútvarpið sem kæmi til greina væri þá eflaust stuðningur í gegnum fjárlög eða nefskattur sem afnotagjöldin eru í raun og veru í dag.

Ég vil fá að heyra aðeins, af því að hv. þm. svaraði því ekki, hvort þetta sé ný stefna Framsfl., hversu ígrunduð hún sé og hvernig þau vilji þá sjá stöðu Ríkisútvarpsins styrkta.

Á hinn bóginn vil ég segja varðandi auglýsingarnar og möguleika Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði að ég lít á auglýsingar sem hluta af þjónustu við almenning í landinu og er þess vegna ósátt við að Framsfl. skuli ætla að leggja því lið að þeirri þjónustu sem Ríkisútvarpið hefur sinnt verði hætt.