Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 18:32:28 (7019)

2004-04-28 18:32:28# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), dómsmrh.
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[18:32]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason):

Frú forseti. Ég vil hefja mál mitt á því að þakka hæstv. menntmrh. fyrir að flytja Alþingi þessa skýrslu og hafa frumkvæði að því að þessar umræður fari hér fram í dag. Ég tel að það sé ákaflega mikilvægt og í samræmi við þau vinnubrögð sem stunduð hafa verið í málinu að ræða kosti og galla þess viðfangsefnis sem við stöndum frammi fyrir. Eins og aðrir þingmenn vil ég líka þakka nefndinni sem vann skýrsluna fyrir mjög vel unnið starf og þær upplýsingar sem hér hefur verið safnað saman. Ég tel í raun og veru að skýrslan og allt það starf marki ákveðin þáttaskil í umræðum um fjölmiðla hér á landi og sé bautasteinn á leið okkar til að efla lýðræði og betri stjórnarhætti en við höfum búið við á undanförnum árum þegar litið er til starfsemi fjölmiðlanna.

Ég vek sérstaklega athygli á því, með leyfi virðulegs forseta, sem segir á bls. 79 í hinni prentuðu skýrslu:

,,Hafa ber í huga að hér hefur verið lýst stöðunni á íslenskum markaði eins og hún er þegar greinargerð þessi er rituð, og komist að þeirri niðurstöðu að hún hafi ýmis einkenni samþjöppunar sem talin eru óæskileg út frá markmiðinu um fjölbreytni í fjölmiðlun. Er þá gengið út frá því, eins og rakið hefur verið, að fjölmiðlar gegni lykilhlutverki í lýðræðislegu þjóðfélagi sem vettvangur fyrir ólík viðhorf til stjórnmála og menningar í víðum skilningi, og sem vettvangur fyrir öflun upplýsinga og miðlun þeirra.``

Síðan segir: ,,Af mannréttindasáttmála Evrópu, eins og hann hefur verið túlkaður af Mannréttindadómstól Evrópu, leiðir að tryggja ber fjölbreytni í fjölmiðlun.``

Síðan segir á öðrum stað, með leyfi forseta:

,,Það er því skoðun nefndarinnar að af framangreindum viðhorfum Evrópuráðsins og almennum viðhorfum um vernd pólitískrar og menningarlegrar fjölbreytni leiði, að það hljóti að teljast afar æskilegt að löggjafinn bregðist við þessu með lagasetningu, einkum þannig að settar verði reglur sem miði að því að hamla gegn óæskilegum áhrifum samþjöppunar sem þegar er til staðar á fjölmiðlamarkaði og einnig til að hamla frekari samþjöppun á þessum markaði í framtíðinni.

Einkum á þetta við samþjöppun á markaði fyrir einkarekna fjölmiðla, enda hvíla á Ríkisútvarpinu víðtækar skyldur um fjölbreytni í framboði dagskrárefnis og framsetningu þess sem ekki eiga við um einkarekna fjölmiðla.``

Ég tel, frú forseti, að þessi orð skýrsluhöfunda og þau markmið sem þeir setja sér með starfi sínu endurspeglist síðan í því frv. sem lagt er fram og menn hafa líka fyrir framan sig og tel að frv. taki einmitt mið af helstu ábendingum skýrsluhöfunda og sé í þeim anda sem skýrslan boðar. Auk þess hefur komið fram í umræðunum að menntmrh. hefur lagt fyrir ríkisstjórnina tillögu um framhaldsvinnu sem byggist á starfi nefndarinnar sem lýtur að öðrum þáttum en tekið er á í frv.

Ég vil einnig rifja upp, virðulegi forseti, hvernig tilurðin er þegar við skoðum skýrsluna að á Alþingi voru umræður hinn 19. nóv. sl. þegar Álfheiður Ingadóttir, sem þá sat á þingi fyrir Vinstri græna, beindi fyrirspurn til forsrh. um samþjöppun eigna og valds á því sviði þjóðfélagsins sem lýtur að fjölmiðlum og sagði að samþjöppunin gæti orðið lýðræðinu varasöm og sama þróun gæti í rauninni leitt til þess að allir fjölmiðlar í landinu fyrir utan Ríkisútvarpið kæmust á sömu hendur, enda hefði þessi umræða öll orðið til þess að mönnum væri nú ljósara en áður mikilvægi þess að hafa öflugt ríkisútvarp í landinu og það væri vel, að mati hennar. Hún spurði, með leyfi forseta, forsrh. tveggja spurninga:

,,1. Hefur þróun mála á fjölmiðlamarkaði að undanförnu verið til umfjöllunar í ríkisstjórninni?

2. Telur ráðherra koma til greina að sett verði lög til að hindra frekari samþjöppun á fjölmiðlamarkaði og tryggja betur en nú er gert að fjölmiðlar séu sjálfstæðir og óháðir?``

Forsrh. svaraði fyrirspurninni og sagði, með leyfi forseta:

,,Varðandi fyrirspurnina hvort þróun mála á fjölmiðlamarkaði að undanförnu hafi verið til umfjöllunar í ríkisstjórninni, þá er því til að svara að það hefur borið á góma í ríkisstjórninni en ekki verið rætt með formlegum hætti svo það sé nefnt, og ég hygg að það sama sem eigi við um þingflokka stjórnarflokkanna.``

Síðan segir forsrh., með leyfi forseta:

,,Varðandi síðari spurninguna um það hvort ráðherra telji koma til greina að sett verði lög til að hindra frekari samþjöppun á fjölmiðlamarkaði og tryggja betur en nú er gert að fjölmiðlar séu sjálfstæðir og óháðir, þá tel ég að það sé alls ekki hægt að útiloka það að til slíkrar lagasetningar komi og það mætti jafnvel færa fyrir því rök að í því fælist tómlæti af hálfu þingsins við núverandi aðstæður að láta ekki koma til athugunar a.m.k. slíka lagasetningu.``

Ég nefni þetta hér, virðulegi forseti, m.a. vegna umræðna sem orðið hafa um það hvort þeir sem hafa staðið að því að samþjappa valdi á fjölmiðlasviðinu á undanförnum mánuðum hafi gengið til þess í einhverju tómarúmi án vitundar um vilja og viðhorf stjórnvalda sem hafa komið fram í þinginu varðandi þau mál. Svo er alls ekki. Og það var ekki aðeins fyrirspyrjandi og forsrh. sem töluðu á þennan veg í umræðunum 19. nóv. sl. því Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna sagði, með leyfi forseta:

,,Það er augljóst mál að samþjöppun í fjölmiðlaheiminum er sérlega varasöm. Fjölbreytni er nauðsynleg ... Það er sérstaklega varhugavert ef umsvifamiklir aðilar í viðskiptum, sem jafnvel starfa í fákeppnisumhverfi þar, gerast jafnframt fjölmiðlakóngar. Þá er stutt í hið rússneska ástand, íslenska ,,ólígarka``, nýríka viðskiptajöfra sem eru jafnframt með fjölmiðla eða fjölmiðlakeðjur á sínum höndum til að reka áróður fyrir umsvifum og störfum sínum.``

Þetta sagði formaður Vinstri grænna.

Margrét Frímannsdóttir, þingflokksformaður Samf., komst þannig að orði, með leyfi forseta:

,,Það hlýtur að vera hlutverk okkar á Alþingi að tryggja réttlátar og skýrar leikreglur hvað varðar fjölmiðla og fjölmiðlamarkaðinn rétt eins og aðra þætti. Það er okkar að móta leikreglurnar og hafa eftirlitið og annarra að vinna úr því. Það getur vel verið að það sé nauðsynlegt að taka sérstaklega á eignarhaldinu og að fjölmiðlarnir verði í mismunandi eða fjölbreyttri eignaraðild. Þá skiptir ekki eins miklu máli hvað kemur frá fréttastofunum ef tryggð er dreifð eignaraðild og mismunandi eignaraðild á fjölmiðlunum.``

Þetta sagði formaður þingflokks Samf. í umræðunum 19. nóvember árið 2003.

Því kemur mér á óvart, virðulegi forseti, að heyra nú fulltrúa Samf. sem taka til máls um málið leggja áherslu á að Alþingi eigi að koma að því verki að setja lög um innri starfsemi fjölmiðlanna, lög sem lúta að því hvernig samskiptum er háttað innan ritstjórna fjölmiðlanna, á milli eigenda fjölmiðlanna, ritstjóra fjölmiðlanna og blaðamannanna sem starfa á fjölmiðlunum, og leggja áherslu á það í málflutningi sínum að þetta séu þau atriði sem líta eigi til og að við eigum alveg að sleppa því að líta á hina ytri umgjörð, sleppa því að velta fyrir okkur eignaraðildinni og hvernig henni er háttað á þessum markaði og strika yfir hættuna af samþjöppun á því sviði, sem stangast algjörlega á við það sem formaður þingflokksins sagði fyrr í vetur og stangast ekki síst á við það sem hv. formaður flokksins sagði í umræðum á Alþingi fyrir aðeins tveimur árum, 22. janúar árið 2002, þegar hann sagði, með leyfi forseta:

,,Er ekki rétt munað hjá mér að helsti trúnaðarmaður ríkisstjórnarinnar, Hreinn Loftsson, formaður einkavæðingarnefndar, sé enn þá stjórnarformaður Baugs? Ef fortölur duga ekki til, herra forseti, þá er það skoðun okkar í Samfylkingunni að Samkeppnisstofnun eigi að fá í hendur þau tæki sem hún þarf til þess að skipa fyrir um breytingar, þar á meðal að skipta upp slíkum einokunarrisum ef hún telur þess þörf til þess að vernda hagsmuni neytenda.``

Þetta sagði formaður Samf. 22. janúar árið 2002. (ÖS: ... landsfundi.) Ég ítreka að það er ekki maður úti í bæ sem talar svona, hann er hér í salnum og gerir hróp að mér fyrir að rifja upp þessi orð sín. En þetta sagði hann og þarna talaði hann um að það væri nauðsynlegt að brjóta upp slíka einokunarrisa og ef það væri ekki hægt á grundvelli núgildandi laga væri nauðsynlegt að Alþingi kæmi að og setti lög sem dygðu til þess.

Nú koma þessir ágætu samfylkingarmenn og tala á þann veg að það megi ekki en hins vegar eigi að setja löggjöf um innra starfið í fjölmiðlunum, löggjafinn eigi að hlutast til um það hvernig starfsháttum er háttað á ritstjórnum fjölmiðlanna til þess að setja þar fleyg á milli stjórnenda, eigenda og starfsmanna. Þeir hafa flutt þáltill. sem gengur út á það og er um gagnsæi og ritstjórnarlegt sjálfstæði á íslenskum fjölmiðlamarkaði. Og það á að taka þannig á málum samkvæmt þeirri tillögu að löggjafinn hlutist til um þetta.

Í umræðum sem fram fóru fyrr í dag þegar verið var að spyrja hæstv. menntmrh. var hins vegar spurt: Hvaðan eru fyrirmyndirnar? Hvaða fyrirmynd hefur menntmrh. haft frá öðrum löndum þegar hún samdi frv. og kemur með þær tillögur sem hér liggja fyrir? Hvert er leitað þegar menn koma með þær reglur sem talað er um að setja hér á grundvelli skýrslunnar? Menn töldu að það væri eitthvað sérkennilegt að smíðaðar væru séríslenskar reglur sem varða þetta svið. En í greinargerð þáltill. Samf. er kafli, herra forseti, sem heitir Íslenska hefðin og þar segir, með leyfi forseta:

,,Þar sem lagaumhverfi er á hinn bóginn mjög breytilegt frá einu landi til annars er erfitt að finna rök fyrir frekari lagaskipan hér á landi með því að benda til útlanda. Rökin fyrir frekari takmörkunum í lögum um íslenska fjölmiðla verða því að spretta af íslenskum aðstæðum.`` --- Stendur í þessari greinargerð frá Samf.

Síðan standa menn hér upp og fárast yfir því hvernig í ósköpunum hæstv. menntmrh. hafi dottið í hug að semja löggjöf um íslenska fjölmiðlun sem ekki á sér erlendar fyrirmyndir. (Gripið fram í.) Þetta eru spurningarnar sem hér hafa komið. Samf. vill að sett sé löggjöf um innra starf í fjölmiðlunum. Hún flytur tillögu um nauðsyn þess að gerðar séu lagabreytingar sem taki mið af íslenskum aðstæðum, en hún treystir sér ekki til að styðja frv. sem hér liggur fyrir og byggt er á þeirri greinargóðu skýrslu sem við erum öll sammála um að tekur á þessum málum af þeirri skynsemi sem þarf til að komast að skynsamlegri niðurstöðu.

Ég spyr mig þess vegna, virðulegi forseti, hvað það er sem vakir fyrir Samf. Hvers vegna bregst hún svona við? Hvaða hagsmunir eru það sem hún er að verja þegar hún talar á þennan veg? Sérstaklega líka þegar litið er til þess sem stendur í greinargerðinni sem ég vísaði til, með leyfi forseta:

,,Hætta er á því að einokun eða fákeppni skaði hæfni fjölmiðlanna til að sinna hlutverki sínu og grafi undan gildi þeirra með því að þeir sinni öðru fremur hagsmunum eigenda sinna eða stjórnenda, m.a. í stjórnmálum og viðskiptum.``

Þetta er ályktun í greinargerð Samf. Hér liggur fyrir skýrsla nefndar upp á tæplega 200 blaðsíður sem sýnir okkur fram á að full ástæða er til þess að hafa þær áhyggjur sem reifaðar eru í greinargerðinni og síðan þegar tillögur koma um það snýst Samf. gegn því. Hvaða hagsmuni er Samf. að verja með þessu? (Gripið fram í.) Ég er ekki í Samf., ég get ekki svarað því. Ég hef hins vegar lesið þau gögn sem þið hafið lagt fram. Ég hef lesið viðhorf formanns þingflokks Samf. og viðhorf formanns Samf. til þessara mála og ég spyr mig: Hvað er Samf. að verja með því að leggjast gegn því að sú hugmynd sem byggð er á tillögu og skýrslu þessarar ágætu nefndar nái fram að ganga?