Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 18:48:39 (7021)

2004-04-28 18:48:39# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), dómsmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[18:48]

Dómsmálaráðherra (Björn Bjarnason) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef hv. þm. hefur áhuga á að setja lög um netmiðla hefur hann allan rétt til þess að leggja fram frv. og sumir mundu segja að það væri mjög skynsamlegt fyrir hann að setja lög um það að menn skrifi ekki eins og hann gerir stundum á netmiðla sína þegar hann hótar að gera árásir á okkur forseta þingsins og þegar hann gengur þannig fram í skrifum sínum á netmiðlana að hann hótar að sprengja bæði mig og forseta þingsins í loft upp. Að vísu var það með þeim hætti að hann ætlaði að nota Spitfire. Ég hef aldrei vitað til þess að menn ætluðu að gera sprengjuárásir með Spitfire. En það er eftir öðru hvernig þessi hv. þm. hagar málflutningi sínum að hann skuli koma hér og tala á þennan veg um þessi mál og spyrja mig hvað ég ætli að gera varðandi takmarkanir á netmiðlum. Ég hef engan áhuga á að takmarka neitt á netmiðlum en ég vil að menn standi fyrir máli sínu þar eins og annars staðar og séu menn til þess að viðurkenna þegar þeir fara langt út fyrir skynsamleg mörk og eru á þeim nótum að varla er hægt að eiga við þá orðastað í þessum sal.