Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 20:56:01 (7037)

2004-04-28 20:56:01# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), GÞÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[20:56]

Guðlaugur Þór Þórðarson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef fylgst með umræðunum af nokkurri athygli eins og aðrir. Ég held að það sem standi upp úr í þeim sé að menn hafa reynt að fikra sig í átt að raunverulegri afstöðu Samf. í þessu máli og hinu, eins og dómsmrh. ræddi, þ.e. út frá hvaða forsendum þeir líta á þessi mál og hvernig þeir nálgast þau. Ég fer betur í það á eftir. Ég er á mælendaskrá.

Ég vildi hins vegar nota tækifærið og spyrja hv. þm. Össur Skarphéðinsson um það sem hann kallar sjálfstæði ritstjórna. Ég hef reynt að fylgjast með því hvernig það er útskýrt og fékk m.a. útskrift af viðtali sem hv. þm. fór í í útvarpinu. Þar lýsti hann því með þessum hætti, með leyfi forseta:

,,Nei, ég er að segja að við getum náð þessum markmiðum, þ.e. komið í veg fyrir misnotkun ófyrirleitinna eigenda á sínum fjölmiðlum, með því að setja lög um ritstjórnarlegt sjálfstæði sem tryggja vernd blaðamanna, gera þeim kleift að vinna að þeim málum sem þeir vilja og þess vegna gagnrýna eigendur eins og stundum hefur verið gert.`` --- Ég endurtek: ,,... vinna að þeim málum sem þeir vilja og þess vegna gagnrýna eigendur eins og stundum hefur verið gert.``

Mér leikur forvitni á að vita hvernig þetta er í framkvæmd. Nú hefur hv. þm. verið ritstjóri á þremur blöðum, Alþýðublaðinu, Þjóðviljanum og DV. Er það svo að hann hafi metið það svo að væru slík lög í gildi og blaðamaður hjá honum á Alþýðublaðinu sem hefði langað til að gera eitthvað sem tengdist ekki ritstjórnarstefnu blaðsins, væri ekki í samræmi við vilja eigenda þess, væri það þá bara heimilt? Sæti þá hann sem ritstjóri, hv. þm. Össur Skarphéðinsson, þáverandi ritstjóri, bara uppi með að þurfa að yppa öxlum ef viðkomandi aðili vildi skrifa um íþróttir, um hvað Sjálfstfl. er góður eða eitthvað slíkt, þvert á vilja eigendanna? Er það vilji hv. þm. og eiga menn við þetta með ritstjórnarlegu sjálfstæði?