Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 21:19:40 (7042)

2004-04-28 21:19:40# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), GuðjG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[21:19]

Guðjón Guðmundsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. sagði eitthvað á þá leið að honum þætti Ríkisútvarpið orðið hallt undir stjórnvöld í landinu. Það heyrir maður mjög gjarnan hjá stjórnarandstæðingum og á tímabili töluðu þeir um Bláskjá þegar þeir nefndu Ríkisútvarpið. Með því eru menn auðvitað að segja að starfsmenn Ríkisútvarpsins vinni ekki störf sín af hlutleysi. Og eina dæmið sem hv. þm. nefndi var að hæstv. menntmrh. hefði verið í viðtali í Kastljósi. Það er varla óeðlilegt að menntmrh. sé fengin til viðtals um þetta mál. Málið heyrir jú undir ráðuneyti hennar.

En ég spyr hv. þm. í tilefni af þessari umræðu: Telur hv. þm. að starfsmenn Ríkisútvarpsins og þá fyrst og fremst fréttamenn og þáttastjórnendur vinni ekki störf sín af hlutleysi og heiðarleika? Telur hann að þeim sé fjarstýrt og þeir forritaðir í þágu stjórnvalda?