Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 21:55:46 (7063)

2004-04-28 21:55:46# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), HHj
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[21:55]

Helgi Hjörvar:

Virðulegur forseti. Tæknin var eitthvað að stríða okkur hér niðri á gólfinu. Það er eftir öðru hér í dag og í kvöld, það hefur að mörgu leyti verið kátleg stund að fylgjast með þeim umræðum sem hér hafa farið fram, enda hafa mál þróast hreint með ólíkindum á Alþingi á síðustu dögum og í þjóðlífinu almennt. Það verður að segjast, virðulegur forseti, að þegar hæstv. menntmrh. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir er farin að kalla sér til vitnis Ólaf Ragnar Grímsson, forseta lýðveldisins, og félaga minn Guðmund Árna Stefánsson, þann mikla leiðtoga jafnaðarmanna í Hafnarfirði, er hæstv. menntmrh. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir í vondum málum. Það er full ástæða til að finna til með ráðherranum því að auðvitað skynjum við það að eins og allar sæmilega frjálslyndar manneskjur getur hún enga sannfæringu haft fyrir því frv. sem verið er að reyna að réttlæta með þeirri skýrslu sem hér er til umræðu. Frv. er algerlega óboðlegt og fullkomlega smekklaust af hálfu hæstv. menntmrh., að gefa í skyn í ræðu sinni að forseti lýðveldisins sé sérstakur stuðningsmaður þess máls sem hæstv. forsrh. Davíð Oddsson hefur ákveðið að keyra í gegnum þingið á síðustu dögunum.

Það er smekklaust, virðulegur forseti, af hæstv. menntmrh. vegna þess að forseti lýðveldisins á að gæta stjórnarskrárinnar. Um þetta frv. eru helst uppi alvarleg álitaefni sem varða réttarríkið, stöðu borgaranna og stjórnarskrána sjálfa. Það er greinilegt að ráðherrann á ekki rök í eigin safni til að réttlæta þann óskapnað sem hér var lagður fram í dag, þ.e. frv. hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar, og þarf þess vegna að reyna að draga aðra inn í það og gera ábyrga fyrir því. Ég held að við hljótum bara að frábiðja okkur að verið sé að blanda með þessum hætti æðsta embætti þjóðarinnar inn í umræðuna.

Sjálfstfl. er í svo vondum málum að ekki bara liggur málið svona, heldur er líka í sjálfu sér nóg að vitna í þá ágætu kumpána, hæstv. forsrh. Davíð Oddsson og hæstv. dóms- og kirkjumrh. Björn Bjarnason, til að sýna fram á að flokkurinn hefur á örfáum vikum algerlega snúið við blaðinu og hleypur núna bara eftir hefndarþorstanum í þessu máli. Það eru ekki nema þrjú ár síðan hæstv. forsrh. Davíð Oddsson tjáði sig um stofnun Ísfilms, þegar markaðsráðandi aðilar hér í landinu tóku sig saman um að stofna fjölmiðlarisa, væntanlega á borð við Norðurljós, og sagði að það hefði verið rétt hugmynd en tíminn rangur vegna þess að efnahagsástandið var ekki gott.

Rétt hugmynd, og núna er væntanlega réttur tími því að efnahagsástandið er ágætt. En það er alveg augljóst hvað á að varna þeirri hugmynd í dag þó að hún sé rétt og tíminn líka. Það er einfaldlega sú staðreynd að rangir menn eiga í hlut. Það er ástæða til að vitna frekar í flokksfélaga hæstv. menntmrh. og fyrirrennara á stóli ráðherra. Árið 1995 segir Björn Bjarnason orðrétt, með leyfi forseta:

,,Við lifum á tímum sem eru kenndir við upplýsingabyltinguna þar sem menn eru að stíga ný skref til upplýsingamiðlunar og tileinka sér nýja tækni til þess að geta verið virkir þátttakendur í þeirri byltingu. Ég hef skilið það svo að samruni eða samstarf þeirra tveggja fyrirtækja sem hér hefur sérstaklega verið rætt um miði að því að Íslendingar geti orðið virkari þátttakendur í þessari byltingu og hér verði fyrir hendi aðstaða og þekking til þess að nýta sér hana til fullnustu. Ég sé ekki að það sé neitt athugavert við það að fyrirtæki sameinist, einkaaðilar sameinist um slíka starfsemi og tel það því miklu meira í samræmi við tímann heldur en mæla fyrir um það að ríkið auki hlut sinn á sviði fjölmiðlunar. Ég tel að það hafi verið tímanna tákn á sínum tíma þegar Ríkisútvarpið var stofnað að þá voru menn að glíma við tæknileg vandamál sem ekki voru á færi einstaklinga að leysa. Nú eru breyttir tímar og þá eiga einstaklingar að láta að sér kveða með þeim hætti sem skynsamlegast er og það er að gerast í þessu máli.

Það er einnig rangt að halda því fram að hér hafi þrengst um á fjölmiðlamarkaði. Þvert á móti hafa tæknibreytingarnar leitt til þess að það er miklu auðveldara en áður var að stunda fjölmiðlun, bæði í útvarpi og einnig í blaðaútgáfu, enda sjáum við það um land allt og hvarvetna þar sem menn hafa áhuga á að láta að sér kveða að þeir geta gefið út blöð og þeir geta opnað útvarpsstöðvar þannig að það er algerlega rangt að halda því fram að skoðanamyndun í landinu sé að færast á færri hendur. Þvert á móti hefur tæknin leitt til þess að það geta fleiri látið að sér kveða.

Um það hvort þurfi að setja sérstaka löggjöf varðandi þessa starfsemi þá dreg ég það í efa. Ég held að sú löggjöf sem er nú fyrir hendi geri mönnum kleift að stunda þessa starfsemi, bæði blaðaútgáfu, útvarpsstarfsemi og sjónvarpsstarfsemi með þeim hætti að fullnægjandi sé fyrir hagsmuni hins almenna borgara. Og ég mótmæli því að einhver þróun hafi átt sér stað hér í landinu sem miðar að því að færa upplýsingamiðlun á færri hendur. Hið gagnstæða hefur í raun og veru gerst.``

[22:00]

Svo mörg voru þau orð Björns Bjarnasonar þegar um var að ræða að annað af stærstu blöðum landsins, DV, og Stöð 2, núverandi Norðurljós, ráðandi þá yfir ýmsum ljósvakamiðlum öðrum væru að sameinast. Það er algerlega augljóst að það er ekkert sem hefur breyst í þessu umhverfi annað en það að hér hefur fjölbreytni aukist frá því að hæstv. dóms- og kirkjumrh. sagði þessi orð. Við höfum fengið fleiri sjónvarpsstöðvar, öflugri dagblöð og fleiri útvarpsstöðvar. Hvers vegna þá þessi kúvending?

Jú, vegna þess að þótt hugmyndin sé rétt og tíminn réttur eiga rangir menn í hlut. Ég lýsi mig, virðulegur forseti, algerlega ósammála þeim ályktunum í skýrslunni sem hér er til umfjöllunar að hér sé ekki nægileg fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði. Ég tel að ég hafi sýnt fram á það í umræðunni fyrr í dag að aldrei fyrr í Íslandssögunni hafi verið meiri fjölbreytni á fjölmiðlamarkaði á Íslandi. Ég tel að ekkert málsvæði af okkar stærðargráðu í veröldinni eigi jafngróskumikið fjölmiðlalíf og okkar Íslendinga. Ég held að við höfum mörg þurft að segja erlendu fólki það oftar en einu sinni og oftar en tvisvar til að það tryði því að hér kæmi út eitt eintak af dagblaði á hverja tvo íbúa landsins, að hér væru fyrir 300 þús. manna málsvæði reknar fjórar sjónvarpsstöðvar með tveimur sjálfstæðum fréttastofum og hér væri sennilega á annan tuginn af útvarpsstöðvum fyrir utan síðan öll héraðsfréttablöðin, netmiðlana og hvað þetta allt saman heitir. Ég tel að það frjálsræði sem þessi starfsemi hefur búið við hafi átt hlut að máli við að tryggja þessa gróskumiklu flóru. Ég held að sannarlega sé mjög varhugavert að ætla að setja skorður við því að fólk megi fjárfesta í fjölmiðlum.

Ég ætla líka, raunar eins og hæstv. dómsmrh. Björn Bjarnason gerði hér árið 1995, að leyfa mér að efast um að rétta viðbragðið við þessu, eins og fram kemur hjá skýrsluhöfundum, sé að efla Ríkisútvarpið. Ég held a.m.k. að menn þurfi að hugsa það mál mjög vel áður en þeir draga þá ályktun. Mér virðist að mörgu leyti að hér hafi frjálsir fjölmiðlar átt nokkuð erfitt uppdráttar á ljósvakamarkaði, kannski ekki síst vegna hinnar gríðarlega sterku stöðu Ríkisútvarpsins á þeim markaði. Ég tel að sterk staða Ríkisútvarpsins sé æskileg, vil ekki að ég sé misskilinn í því efni, en ég er ekki viss um að leiðin til að efla fjölbreytnina og styrkja flóruna sé að styrkja það enn frekar. Að mörgu leyti hefur mér sýnst sem samruninn svokallaði á ljósvakamarkaðnum hafi verið kominn til af nauðung vegna þess að þeir ljósvakar hafi ekki átt í fullu tré við hina sterku markaðsstöðu Ríkisútvarpsins.

Rekstrarforsendur fyrir mjög mörgum fyrirtækjum eru þannig slakari. Þess vegna eru jafnvel þau fyrirtæki sem enn eru við hliðina á Norðurljósum á þeim markaði heldur að leita eftir að sameinast til þess að leysa úr rekstrarvanda sínum og komast í aðstöðu til að geta keppt við Ríkisútvarpið og hina gríðarlega sterku stöðu þess.

Ég held að annað þurfi frekar að efla í Ríkisútvarpinu, nefnilega sjálfstæði þess. Ég held að í rúmlega 70 ár, allt frá því að afi minn og alnafni, Helgi Hjörvar, setti það fyrirtæki á stofn fyrir hönd ríkisins hafi það mátt búa við afskipti stjórnmálamanna og að pólitíkin hafi gjarnan unnið því fyrirtæki meira ógagn en gagn. Á hans tíma var það Jónas frá Hriflu, nú um stundir eru það einhverjir aðrir. Pólitísk afskipti hvers konar af starfsemi útvarpsins hafa spillt fyrir því. Þau ógna hlutleysi og fjölbreytni í fjölmiðlum okkar og það að efla sjálfstæði Ríkisútvarpsins hlyti að vera eitt af fyrstu viðfangsefnunum í því að stuðla að réttarbótum á fjölmiðlamarkaði.

Virðulegur forseti. Ég ætla að fá að koma að því efni í síðari ræðu minni þar sem ég hef svo gott sem lokið tíma mínum.