Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 22:27:59 (7067)

2004-04-28 22:27:59# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), HHj (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[22:27]

Helgi Hjörvar (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er eðlilegt að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson fari bara að tala um hve hann sé almennt stoltur af landi og þjóð þegar lagðar eru fyrir hann erfiðar spurningar. Það er auðvitað þannig að hann getur ekki tiltekið neitt land í heiminum sem hefur verið svo vitlaust að banna öllum þeim kaupsýslumönnum sem eiga hlut í markaðsráðandi fyrirtækjum að leggja fé í ljósvakamiðla. Ég leyfi mér að efast um það að þess séu nokkur dæmi.

Ég held, virðulegur forseti, að Fínn miðill hafi endað inni hjá Norðurljósum, hafi leitað skjóls þar til að efla sig í erfiðri samkeppni á ljósvakamiðlamarkaðnum. Ég held að saga frjálsra fjölmiðla á Íslandi sýni að þeir þurfa á öllu sínu að halda og að það geti ógnað verulega fjölbreytni á þessum markaði ef menn banna þeim fyrirtækjum sem fjármuni eiga að leggja fé í þann rekstur.