Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 23:03:12 (7082)

2004-04-28 23:03:12# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), menntmrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[23:03]

Menntamálaráðherra (Þorgerður K. Gunnarsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur fyrir að koma hingað upp í ræðustól og nálgast málið út frá öðrum vinkli en hefur verið gert í dag. Að mínu mati var þetta, þó ég hafi ekki verið sammála hv. þm. í öllu, ein málefnalegasta ræðan sem hefur komið frá hv. stjórnarandstöðu, þar sem hv. þm. reyndi að kafa ofan í ýmsa merkilega hluti og benti m.a. réttilega á að blaðamennskan er fagmennska.

Það er rétt, blaðamennskan er fagmennska. Ég trúi því og treysti og ég hef margoft sagt að ég treysti þeim blaðamönnum og fjölmiðlum sem starfa hér á landi, þó ég gagnrýni þá engu að síður oft á tíðum fyrir efnistök þeirra. Ég treysti því að þeir fari fram með sannfæringu og bestu vitund og að þeim sé ekki fjarstýrt.

Ég hlýt líka að spyrja: Eru ekki blaðamennirnir í Bretlandi og á Ítalíu líka fagmenn? Ég hef enga trú á öðru en þeir blaðamenn og þeir fjölmiðlamenn sem starfa hjá fyrirtækjasamsteypu Ruperts Murdochs og Berlusconis telji sig líka vera fagmenn og faglega blaðamenn eins og blaðamenn telja sig vera um allan heim.

Engu að síður sest eigandinn Rupert Murdoch niður og veltir fyrir sjálfum sér og alþjóð: Á ég að styðja Verkamannaflokkinn núna eða á ég að styðja Íhaldsflokkinn? Hvort á ég að gera? Hvort hentar hagsmunum mínum betur? Hvaða flokk á ég að styðja í þetta skiptið? Síðan er trillað niður á ritstjórnarskrifstofu og sagt: Gjörið svo vel, styðjum þann flokk sem hentar hagsmunum mínum best.