Eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra

Miðvikudaginn 28. apríl 2004, kl. 23:57:50 (7089)

2004-04-28 23:57:50# 130. lþ. 105.1 fundur 509#B eignarhald á fjölmiðlum á Íslandi, munnleg skýrsla menntamálaráðherra# (munnl. skýrsla), JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 105. fundur, 130. lþ.

[23:57]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég talaði um það í ræðu minni áðan að það væri nýtt sem ég hefði a.m.k. hvergi séð áður að mönnum hafi dottið í hug á Íslandi að taka prentfrelsið af einhverjum. En hér er lagt til að prentfrelsi verið tekið af þeim sem eru í fjölmiðlun. Þeir mega sem sagt ekki koma nálægt neinni prentútgáfu. Hins vegar er gert ráð fyrir því þó að menn hafi lagt til atlögu við prentfrelsið að markaðsráðandi fyrirtæki megi gefa út blöð. Þetta er svolítið skondið og hlýtur að vera umhugsunarefni eftir allar ræðurnar um að menn sem hafi yfirráð á markaði geti hagað sér þar í skjóli afls síns á markaði. Úr því að menn hafa svona miklar áhyggjur af því hvað varðar sjónvarp og útvarp, af hverju hafa menn þá ekki áhyggjur af því hvað varðar blöð? Og úr því að þeir hafa hoppað yfir þann litla læk að taka prentfrelsið af einhverjum, af hverju lögðu þeir þá ekki í að gera það hvað varðar blöðin líka?

Ég spyr hæstv. ráðherra að þessu. Og ég spyr hæstv. ráðherra líka að því hvort hún hafi engar áhyggjur af því að það skuli eiga að skrúfa með þvílíkum hætti fyrir fjármuni til fjölmiðlunar eins og hér er lagt til að gert verði því ekki er bara verið að kippa úr sambandi þeim sem eru ráðandi á markaði, heldur er verið að þrengja svo að öðrum aðilum sem hugsanlega vildu leggja fjármuni í fjölmiðla að það er mjög hætt við því að þeir verði býsna fáir, og það er ekki gott að koma auga á það t.d. hverjir hefðu endurreist þá fjölmiðla sem voru endurreistir fyrir stuttu síðan ef slíkar reglur hefðu verið komnar.