Aðgangur þingmanna að upplýsingum

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 10:41:11 (7110)

2004-04-29 10:41:11# 130. lþ. 106.91 fundur 511#B aðgangur þingmanna að upplýsingum# (aths. um störf þingsins), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[10:41]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég er undrandi á hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur sem hefur setið í ríkisstjórn, að hún skuli tala með þeim hætti sem hún gerir hér, tala um að verið sé að hindra að löggjafarsamkoman geti sinnt störfum sínum með því að ég afhendi ekki drög að frv. sem er til meðferðar innan ríkisstjórnar. (BH: Eftir þrjá mánuði?) Þannig er að það er ekki komin niðurstaða í málið, því miður, og meðan ríkisstjórnin er að fjalla um þetta mál tel ég það ekki til bóta að gera þessi gögn opinber. Það voru drög að frv. sem mér voru afhent af þeim starfshópi sem var að störfum og ég get upplýst það að hann komst að sameiginlegri niðurstöðu. Engu að síður er málið ekki útrætt á milli þeirra ráðherra sem þarna eiga í hlut.

Af því að öryrkjadómurinn var nefndur tel ég að hann sé ekki fordæmi í þessu máli.

Við munum fá tækifæri til að fjalla efnislega um málið í utandagskrárumræðum síðar í dag og þá er hægt að fara dýpra í það. Það liggur sem sagt fyrir með bréfi að viðskrn. hafnar því að gera þessi frumvarpsdrög opinber að svo stöddu.