2004-04-29 10:59:48# 130. lþ. 106.95 fundur 515#B staða viðræðna við Bandaríkjamenn um herinn og uppsagnir starfsmanna hjá hernum# (umræður utan dagskrár), GÖrl
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[10:59]

Gunnar Örlygsson:

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni fyrir að taka þetta þarfa mál til umræðu. Hér er tiplað á tveimur stórum og mikilvægum málum, annars vegar stöðu viðverunnar við varnarliðið og hins vegar atvinnumálum á Suðurnesjum.

Ég vil nota þennan stutta tíma sem hér um ræðir til að ræða um atvinnumálin. Ég tel mikil tækifæri felast í því flugvallarsvæði sem við eigum á Keflavíkurflugvelli. Að mínu mati er þetta gullið tækifæri. Því er brýnt að tekið sé undir hugmyndir til að mynda flugvirkja en þeir hafa sýnt flugvélaskýli nr. 885 sérstakan áhuga.

Ég frétti af því á dögunum að ráðamenn íslensku þjóðarinnar, margir hverjir, hefðu farið til Shannon á Írlandi til að sjá og skoða þá aðstöðu sem Atlanta hefur komið upp er lýtur að viðhaldi flugvéla. Þar starfa í dag 160 manns. Það fyrsta sem kom upp í huga minn þegar ég frétti af fyrirhugaðri ferð var hvort farið væri til þess að fagna mistökum. Getur það verið að við höfum einfaldlega sofið á verðinum með þetta tækifæri sem Atlanta hefur nú komið af stað á Írlandi?

En það þýðir ekki að gráta gerðan og orðinn hlut. Ég vil taka fram að ég tek undir margt gott sem hefur verið í gangi hjá utanríkisþjónustunni, til að mynda aukna aðstoð í þróunarmálum og öðru slíku, en það styrkir um leið stöðu okkar í NATO og veitir okkur jafnvel tækifæri til viðskiptalegra tengsla við NATO. Því spyr ég: Hefur hæstv. utanrrh. skoðað möguleika á því hvort Íslendingar geti tekið að sér, þótt ekki væri nema örlítinn hluta af viðhaldi og þjónustu við flugvélaflota NATO? Hefur hæstv. ráðherra kynnt sér hugmyndir Flugvirkjafélags Íslands um viðhald og nýjan iðnað á Keflavíkurflugvelli sem sannarlega mundi veita þessu svæði mikinn stuðning í atvinnulegu tilliti?