2004-04-29 11:02:04# 130. lþ. 106.95 fundur 515#B staða viðræðna við Bandaríkjamenn um herinn og uppsagnir starfsmanna hjá hernum# (umræður utan dagskrár), KolH
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[11:02]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Frú forseti. Hvernig skyldi atvinnulausu fólki á Suðurnesjum líða eftir að hafa hlustað á ræðu hæstv. utanrrh. áðan, yfirlýsingar um það hvernig gangi fyrir Bandaríkjaher að kanna uppbyggingu liðsafla síns í Evrópu eða hversu mikill þungi hafi verið í þeim tillögum Íslendinga að halda fram sjónarmiðum okkar um einhvern nauðsynlegan varnarviðbúnað? Hvernig ætli atvinnulausu fólki á Suðurnesjum hafi líkað kaflinn um Norfolk og Stuttgart? Í alvöru. Frú forseti. Hér eru lagðar spurningar fyrir hæstv. utanrrh. sem lúta að því hvort það standi til að gera eitthvað í atvinnumálum Suðurnesja vegna þeirrar stöðu sem þar er uppi. Það er spurt af hverju ekki sé starfandi formleg samráðsnefnd ríkisins og heimamanna um þau mál. Og það er spurt hvort einhver vinna sé í gangi til að skoða möguleikana á því að nýta sérstök mannvirki sem nú eru að losna, hvort það sé einhver skapandi vinna í gangi til að búa til atvinnu á svæði þar sem verið er að draga saman umsvif amerísks hers.

Sannleikurinn er sá að hæstv. utanrrh. hefur ekkert að segja fólki á Suðurnesjum, hvorki atvinnulausu né öðru. Það er afar sorglegt, frú forseti, að það skuli ekki geta verið meiri vinna í gangi í þessum efnum en raun ber vitni. Við herstöðvaandstæðingar höfum sagt það alla þá tíð sem barist hefur verið gegn veru erlends hers á Íslandi að við þurfum að hugleiða að þessi staða verði ekki ævarandi. Það komi að því að herinn hverfi á brott og þá þurfi íslensk stjórnvöld að vera við því búin, vera búin að vinna heimavinnuna sína og undirbúninginn að því að útbúa atvinnutækifæri í heimahéraði. Það er á ábyrgð íslensku þjóðarinnar. Það er á ábyrgð hæstv. utanrrh. Það var um það sem hann var spurður hér. Hann vék sér undan að svara.