2004-04-29 11:04:12# 130. lþ. 106.95 fundur 515#B staða viðræðna við Bandaríkjamenn um herinn og uppsagnir starfsmanna hjá hernum# (umræður utan dagskrár), HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[11:04]

Hjálmar Árnason:

Virðulegi forseti. Ég hjó eftir tveimur forsendum í máli hv. frummælanda, Steingríms J. Sigfússonar.

Hann sagði annars vegar að engar utanaðkomandi ógnir steðjuðu að íslensku þjóðinni í a.m.k. þúsund km fjarlægð. Ég held að ég hafi tekið rétt eftir. Ég vildi vart trúa mínum eigin eyrum og ég spyr hvort hv. þingmaður fylgist ekki með því sem er að gerast í kringum okkur, m.a. þeirri staðreynd að það eru hundruð flugvéla sem hér fara yfir, hvort hv. þingmaður fylgist ekki með þeim skelfilegu vinnubrögðum sem hryðjuverkamenn hafa gripið til, ekki síst í farþegaflugi. Þar af stafar sannarlega mikilli ógn og er rík ástæða til að hafa áhyggjur.

Hins vegar gaf hv. þm. sér þá forsendu að herinn færi. Nú efast ég ekki eitt augnablik um að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon er mikill hermálasérfræðingur en ég leyfi mér samt að draga þessa fullyrðingu hans nokkuð í efa og trúi að hún byggi frekar á óskhyggju en á sannri þekkingu.

Staðreyndin er sú að varnir okkar byggja á tvíhliða samningi. Við viljum ekki vera ein Vesturlandaþjóða án loftvarna, við höfum valið okkur bandamenn í því skyni og það hefur ríkt traust á milli þeirra þjóða. Eins og fram hefur komið stendur yfir endurskoðun á hlutverki Bandaríkjamanna í alþjóðlegu samstarfi. Þar er víða komið við, ekki einungis í herstöð hér, heldur í Bandaríkjunum, Evrópu og víðar. Hins vegar liggur fyrir vilji frá æðstu mönnum Bandaríkjanna til þess að virða hinn tvíhliða samning og þar að þurfa báðir aðilar að koma og það er trúa mín að fyrr en síðar muni fást niðurstaða. Ég óttast þó að sú niðurstaða muni ekki fást fyrr en eftir forsetakosningar þar sem stjórnsýslan í Bandaríkjunum snýst fyrst og fremst um forsetakosningar núna og það skapar sannarlega mikið óöryggi og sársauka meðan á því stendur.