2004-04-29 11:08:47# 130. lþ. 106.95 fundur 515#B staða viðræðna við Bandaríkjamenn um herinn og uppsagnir starfsmanna hjá hernum# (umræður utan dagskrár), GHj
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[11:08]

Guðjón Hjörleifsson:

Virðulegi forseti. Ég vil í upphafi þakka málshefjanda, hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, fyrir að taka þetta mál upp á Alþingi. Vera varnarliðsins hefur haft mikil og góð áhrif á atvinnumál á Suðurnesjum í áranna rás en nú sjáum við fram á breytingar í þeim efnum. Þann 1. nóvember sl. var um 100 starfsmönnum sagt upp og nýlega var 14 starfsmönnum sagt upp í viðbót. Jafnframt eru boðaðar frekari hagræðingar á næstu tveimur mánuðum sem gætu falið í sér fleiri uppsagnir.

Eitt það sárasta sem fólk lendir í er að missa vinnuna og fara að lifa í miklu óvissuástandi um framtíð sína. Allar þessar breytingar hafa mikil áhrif á samfélag Suðurnesjamanna og það er mikilvægt að reyna að bregðast við til þess að reyna að milda áhrif þessara uppsagna. Þarna býr dugmikið fólk og sveitarstjórnir hafa verið að reyna að auka atvinnutækifærin en það dugir ekki til. Við þurfum að bregðast við og hefja nú þegar samstarf við heimamenn um ýmis uppbyggingarmál sem þegar hafa verið í umræðunni. Af nógu er að taka.

Vonandi sjáum við stálpípuverksmiðju rísa í Helguvík. Mikilvægt er að samningar um frekari uppbyggingu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja verði undirritaðir sem fyrst og ég vil einnig sjá þá breytingu að nýtt fangelsi verði byggt á Suðurnesjum. Hitaveita Suðurnesja er öflugt fyrirtæki og miklar framkvæmdir eru fram undan vegna orkusölu til Norðuráls. Stækkun er fram undan í Flugstöð Leifs Eiríkssonar og hugmyndir heimamanna í ferðamálum er tengjast víkingaskipinu Íslendingi eru mjög spennandi.

Virðulegi forseti. Ekki má gleyma þeim þætti sem oft er vanmetinn þegar rætt er um atvinnumál, það eru samgöngumál sem oft eru eitt sterkasta sóknarfæri til að styrkja atvinnuuppbyggingu. Ég tel að sérstaklega þurfi að skoða flýtiframkvæmdir vegna tvöföldunar Reykjanesbrautar. Það hefði í för með sér mikil sóknarfæri fyrir þetta starfssvæði sem er þriðja stærsta þéttbýlissvæði landsins.

Starfsemi varnarliðsins hefur verið stór þáttur í öryggismálum landsins og því er það ekki sérmál Suðurnesjamanna að bregðast við. Við þurfum að fara í sértækar aðgerðir í atvinnumálum en Suðurnesjamenn hafa verið sjálfum sér nógir og ekki verið að slást mikið um fjármagn frá ríkinu eða sjóðakerfinu. Eyðum óvissunni og komum til móts við Suðurnesjamenn til að milda þau áhrif sem gætu komið ef um frekari uppsagnir verður að ræða af hálfu varnarliðsins.

Að lokum vil ég beina þeirri hugmynd til hæstv. utanrrh. hvort einn valkostur í viðræðunum gæti verið að fá öflugt fyrirtæki í heimabyggð til þess að taka að sér rekstur varnarliðsins fyrir fasta árlega greiðslu frá Bandaríkjamönnum.