2004-04-29 11:11:01# 130. lþ. 106.95 fundur 515#B staða viðræðna við Bandaríkjamenn um herinn og uppsagnir starfsmanna hjá hernum# (umræður utan dagskrár), MÞH
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[11:11]

Magnús Þór Hafsteinsson:

Hæstv. forseti. Enn á ný á nokkrum vikum ræðum við atvinnumál á Suðurnesjum í sal hins háa Alþingis. Það er ekkert skrýtið vegna þess að ástandið er grafalvarlegt. Suðurnes sitja uppi með ömurlegasta Íslandsmet sem hægt er að hugsa sér, Íslandsmet í atvinnuleysi, og það virðist því miður vera viðvarandi. Þetta tengist að vissu leyti hernum á Miðnesheiði --- það gerir það --- og mér finnst umræðan vera allt of mikið föst í sama farinu. Hún snýst um herinn og veru Bandaríkjamanna. Mig langar til að spyrja utanrrh. hvort íslensk stjórnvöld hafi ekki reynt að leita hófanna annars staðar, eftir öðrum lausnum, einmitt í ljósi aðstæðna og þess augljósa sannleika að Bandaríkjamenn eru að draga saman seglin á Miðnesheiði. Við erum í NATO, við erum í varnarbandalagi sem heitir NATO, við erum ekki í tvíhliða hernaðarbandalagi við Bandaríkin. Við megum ekki gleyma þeirri staðreynd. Það er mikilvæg staðreynd sem við eigum að muna eftir. Þess vegna vil ég fá að vita hvort ekki sé hægt að finna einhverja fleti á samstarfi við önnur NATO-ríki, og þá er ég að tala um Vestur-Evrópu.

Suðurnes eiga mikil sóknarfæri, það er alveg rétt sem komið hefur fram. Suðurnes eiga mikla möguleika í ferðamálum, það er alveg rétt, og stjórnvöld ættu einmitt að gera skurk í því að hlúa að þeim málum. Það þarf líka að gera skurk í samgöngumálum. Breikkun Reykjanesbrautar er gott mál en Suðurstrandarvegurinn skiptir líka mjög miklu máli.

Svo er eitt að lokum sem ég vil nefna og það er að áður fyrr á árunum lifðu Suðurnesin mikið á sjávarútvegi. Með þessu bölvaða kvótakerfi sem við búum við í dag er þar mikil spennitreyja sem menn komast ekki út úr. Það verður að laga.