2004-04-29 11:17:04# 130. lþ. 106.95 fundur 515#B staða viðræðna við Bandaríkjamenn um herinn og uppsagnir starfsmanna hjá hernum# (umræður utan dagskrár), Flm. SJS
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[11:17]

Steingrímur J. Sigfússon:

Frú forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu og þau svör sem hér hafa verið gefin. Það er kannski ekki hægt að segja að mikið nýtt hafi komið fram fyrir utan þá helst það að hæstv. utanrrh. boðar að búast megi við frekari uppsögnum eða hagræðingaraðgerðum á næstu tveimur mánuðum. Þetta staðfestir þá tilfinningu sem forustumenn í verkalýðsmálum á svæðinu hafa, að reynslunni ríkari frá hinum ólögmætu hópuppsögnum fyrir áramót hyggist herinn á næstunni fækka starfsmönnum í smáhópum.

Við hv. þm. Hjálmar Árnason vil ég segja: Við hljótum, óháð ágreiningi um erlenda hersetu sem slíka, að geta sameinast um það í þessum sal að hafa áhyggjur af hagsmunum starfsfólks sem þarna er að missa vinnuna og stöðu þessa svæðis.

Það er rétt, ég reikna með því að bandaríski herinn fari. Kannski verða skildir eftir nokkrir menn til að draga upp fánann á morgnana og taka hann niður á kvöldin. En ég reikna með því að Bandaríkjamenn vilji í grófum dráttum fara með fastan viðbúnað héðan. Þeir eru reyndar farnir að meira en hálfu leyti. Herinn er farinn að meira en hálfu leyti. Það hefur fækkað um meira en helming, bæði flugvélum og hermönnum, á rétt rúmum áratug.

Ég tel versta óraunsæið af öllu í málinu vera það að stinga höfðinu í sandinn (Gripið fram í.), ekki í steininn, heldur sandinn, og telja sér trú um að menn geti varið óbreytt ástand. Það sem menn þurfa að gera er að snúa sér að því að takast á við þessar breytingar. Heimamenn og stjórnvöld eiga að taka höndum saman og það á að semja um aðlögunaráætlun. Það eru þekkt dæmi frá sambærilegum aðstæðum þar sem Bandaríkjamenn hafa verið að fara burtu með herstöðvar að heimamenn hafa fallist á aðlögunargreiðslur, svokallaðar ,,redundancy``-greiðslur sem hafa gengið til starfsmanna eða til atvinnuuppbyggingar í stað þess sem dregið er saman.

Það eru miklir möguleikar á Suðurnesjum, ég tek undir það, í ferðaþjónustu og á mörgum öðrum sviðum. Þarna er þriðja stærsta þéttbýli landsins. Verkefnið er að leysa Suðurnes undan oki hersetunnar sem hvílir þar yfir öllu eins og mara með þeirri óvissu sem þetta mál allt saman er undirorpið.