Útlendingar

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 11:49:20 (7132)

2004-04-29 11:49:20# 130. lþ. 106.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, Frsm. minni hluta ÁÓÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[11:49]

Frsm. minni hluta allshn. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (andsvar):

Frú forseti. Það eru afskaplega mörg umdeild atriði í frv. og nú hefur hv. formaður allshn. staðfest í fjölmiðlum að í meðförum nefndarinnar hafi engar efnislegar breytingar verið gerðar á því.

Samf. hefur afskaplega skýra stefnu í málinu. Við viljum fá þessa svokölluðu 24 ára reglu út. Við viljum fá 66 ára regluna út. Við viljum ekki veita heimild til Útlendingastofnunar til að fara fram á lífsýnatöku. Við erum sömuleiðis á móti hinni öfugu sönnunarbyrði frv. um að viðkomandi þurfi að sanna að hann sé ekki í málamyndahjónabandi. Svona mætti lengi telja. Ég mun að sjálfsögðu fara nánar í þessi atriði þegar ég mæli fyrir minnihlutaáliti á eftir.

Ég hlýt hins vegar að spyrja hæstv. formann allshn. Bjarna Benediktsson um hina svokölluðu 24 ára reglu. Ég kalla eftir rökum fyrir þeirri reglu og spyr: Af hverju duga ekki þau önnur úrræði sem nú þegar eru til staðar í lögum til að sporna gegn svokölluðum nauðungarhjónaböndum? Samkvæmt svari dómsmrh. er ljóst að þetta ákvæði mun snerta réttindi tuga Íslendinga á hverju einasta ári til að sameinast maka sínum á grundvelli hjúskapar. Það er verið að taka rétt af fólki á aldursbilinu 18--24 ára sem það áður hafði og mun ekki eftir lögfestingu þessa ákvæðis hafa. Sömuleiðis mun þessi hópur ekki hafa sömu réttindi og fólk yfir 24 ára aldri.

Ég beini því þeirri spurningu að lokum til hv. þm. Bjarna Benediktssonar: Hvernig getur þetta ekki verið mismunun og brot á jafnræði?