Útlendingar

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 11:51:07 (7133)

2004-04-29 11:51:07# 130. lþ. 106.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, Frsm. meiri hluta BjarnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[11:51]

Frsm. meiri hluta allshn. (Bjarni Benediktsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. nefndi allnokkur atriði sem hann taldi að gera þyrfti athugasemdir við í frv. Hann vék sérstaklega að aldursskilyrðinu sem hefur verið kallað 24 ára ákvæðið í umræðunni. Í sjálfu sér hefur ekkert breyst varðandi helstu rök fyrir því ákvæði frá því að frv. var lagt fram. Þau eru talin upp í frv., þ.e. ákvæðið fjallar um að verið er að veita vernd þeim aðilum sem eru á þessu aldursbili þar sem ákveðin hætta er á því að ekki liggi fyrir samþykki beggja aðila eða að um svonefnd nauðungarhjónabönd sé að ræða. Þetta sést þegar við skoðum flutninga fólks í alþjóðlegu samhengi og það er af reynslu annarra þjóða sem ákvæðið verður til. Menn þekkja það að sambærilegt ákvæði er til í Danmörku. Reyndar var það 28 ár í Danmörku á sínum tíma, en er nú 24. Við erum ekki að finna upp hjólið í þessu samhengi. Ég sakna þess í umræðunni um þetta ákvæði að menn viðurkenni þann grunn málsins sem er það verndarsjónarmið sem býr að baki ákvæðinu.

Það er kallað eftir því hvort einhver önnur úrræði kunni ekki hugsanlega að gagnast betur. Ég skora þá á þingmanninn að tefla fram þeim hugmyndum sem hann hefur í því efni. Þetta eru hugmyndirnar eins og þær birtast í frv. Ákveðin rök eru færð fyrir þeim í athugasemdum með frv. og meiri hlutinn telur ástæðu til að fallast á þau rök. Þess vegna gerir meiri hlutinn ekki tillögu um að ákvæðið verði fellt út.