Útlendingar

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 11:54:23 (7135)

2004-04-29 11:54:23# 130. lþ. 106.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, Frsm. meiri hluta BjarnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[11:54]

Frsm. meiri hluta allshn. (Bjarni Benediktsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. fer hér um víðan völl og það er dálítið erfitt að svara andsvari hans þar sem hann fer langt út fyrir það sem við höfum verið að ræða hér í tengslum við frv. Í ljósi þess að maður hefur takmarkaðan tíma truflar það svolítið umræðuna.

Ég ætla bara að vekja athygli á einu varðandi 24 ára regluna. Því er haldið fram að þetta varði réttindi tuga Íslendinga á hverju ári. Að hve miklu leyti þetta kemur til með að skerða réttindi þeirra eða varða við þau fer að sjálfsögðu eftir framkvæmdinni. Það er eins og að þeir sem hafa gagnrýnt ákvæðið séu einfaldlega ekki tilbúnir til að hlusta þegar þeim er bent á að sú staðreynd að viðkomandi er í hjúskap með Íslendingi eða erlendum aðila búsettum hér á landi er fyrsta atriðið sem kemur til skoðunar þegar umsókn viðkomandi aðila er metin. Það er einungis verið að breyta því að viðkomandi fær ekki sjálfkrafa dvalarleyfi, heldur kemur málið til sérstakrar skoðunar. Hvaða ástæðu hafa þeir sem eru á móti frv. til að ætla að menn ætli að fara að misbeita þessari heimild til að skoða hvert tilvik fyrir sig?