Útlendingar

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 12:38:20 (7144)

2004-04-29 12:38:20# 130. lþ. 106.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, Frsm. minni hluta ÁÓÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[12:38]

Frsm. minni hluta allshn. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg með ólíkindum hvernig hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson og meiri hluti allshn. bæði úr Framsfl. og Sjálfstfl. nálgast þennan málaflokk. Nálgun þessara aðila er öll sú að fólk hljóti að vera að brjóta lögin. Þeir nálgast þetta eins og flestir séu í málamyndahjónaböndum og í nauðungarhjónaböndum. Þú þarft að sanna þitt sakleysi en ekki fara eftir hinni mikilvægu meginreglu sem margoft hefur verið viðurkennd, þ.e. að þú ert saklaus uns sekt er sönnuð. (SKK: Þú ert ekki sakaður um ...) Útlendingastofnun kemur með rökstuddan grun sem er alltaf hennar mat um að þú sért í málamyndahjónabandi. Þá þarft þú að sanna að þú sért ekki í málamyndahjónabandi. Ég geri þá kröfu og minni hlutinn telur eðlilegt að Útlendingastofnun og lögregla sanni að þú sért í málamyndahjónabandi (Gripið fram í.) eða í nauðungarhjónabandi.

Svo má ekki gleyma því um hvað þetta ákvæði snýst. Það snýst um sameiningu fjölskyldna. Þetta snýst ekki um einhverja misnotkun á almannatryggingakerfinu eða neinu slíku. Þetta snýst um að sameina fjölskyldur og maka. Þetta snýst ekkert um neitt annað en það. Minni hlutinn lagði mikla áherslu á það.

Að sjálfsögðu viljum við að málamyndahjónabönd og nauðungarhjónabönd séu refsiverð. Við tökum undir þau sjónarmið. Við teljum ekki að sérstaka húsleitarheimild þurfi í lögum um útlendinga með þeim hætti sem þetta frv. býður upp á. Við teljum alveg að húsleitarheimild í lögum um meðferð opinberra máli dugi vel útlendingum alveg eins og Íslendingum, leiki grunur á refsiverðu afbroti.

En það er alveg merkilegt að hv. þm. Sigurður Kári Kristjánsson réttlætir málflutning sinn með því að hann sé að vernda útlendingana, sérstaklega þá sem eru 18--24 ára. (Gripið fram í.) Ef þetta er vernd Sjálfstæðisflokksins og hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar þá frábið ég mér slíka vernd því það er verið að taka af réttindum (Gripið fram í.) þessa fólks. Það er verið að mismuna eftir aldri. Einstaklingar 25 ára og eldri hafa meiri rétt en þeir sem eru 24 ára og þetta er réttlætt í munni hv. þm. Sigurðar Kára Kristjánssonar með því að hann sé að vernda. Allt tal um mansal kemur mér mjög (Forseti hringir.) spánskt fyrir sjónir í ljósi afstöðu hans í vændismálinu sem er um að gera kaup á vændi ólöglegt.