Útlendingar

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 12:43:09 (7146)

2004-04-29 12:43:09# 130. lþ. 106.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, Frsm. minni hluta ÁÓÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[12:43]

Frsm. minni hluta allshn. (Ágúst Ólafur Ágústsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Bjarni Benediktsson segir að ekki sé verið að skerða nein réttindi og að frv. sé til fyrirmyndar hvað varðar réttindi útlendinga. Það vill svo til að nánast allir sem gáfu umsögn um þetta blessaða frv. eru sammála um að í því felist gríðarleg skerðing. Þetta kemur t.d. frá mannréttindasamtökum, Persónuvernd, Lögmannafélagi Íslands (Gripið fram í.) o.s.frv.

Tökum 24 ára regluna sem dæmi. Einungis eitt ríki í heiminum sem við þekkjum hefur þessa 24 ára reglu og það er Danmörk. Sú regla var afskaplega umdeild og er það í Danmörku. Nú ætlum við að apa upp þessa vitleysu frá dönsku hægri stjórninni.

Svo er það fyrirkomulag lífsýnareglunnar. Þetta er alveg einstakt hér. Það þarf ekki annað en að líta til Norðurlandanna. Bæði í Finnlandi og Noregi er það að frumkvæði einstaklingsins að hann getur lagt fram lífsýni ef hann á í erfiðleikum með að sanna skyldleika. Svona mætti lengi telja.

Ég tel að frv. sé fjandsamlegt útlendingum og réttindum. Að sjálfsögðu þurfum við að hafa ábyrga löggjöf um réttindi útlendinga og Samfylkingin styður það. Við erum ábyrg í þessum málaflokki. Þetta er viðkvæmur og mikilvægur málaflokkur. En nálgun alls frumvarpsins er byggð á röngum forsendum. Það byggist á tortryggni og öðru slíku.

Ég skil ekki hvernig hægt er að leggja þann skilning í frv. að það sé einhver réttarbót fyrir útlendinga. Ég held að sé alveg þveröfugt. Þeir sem leggjast yfir málið komast mjög fljótt að þeirri niðurstöðu að við séum að taka hér stórt skref aftur á bak á kostnað mjög mikilvægra réttinda eins og jafnræðis og mannréttinda.