Útlendingar

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 12:44:58 (7147)

2004-04-29 12:44:58# 130. lþ. 106.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, Frsm. meiri hluta BjarnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[12:44]

Frsm. meiri hluta allshn. (Bjarni Benediktsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það vekur athygli að hv. þm. kýs að horfa algerlega fram hjá því sem ég var að vekja athygli á, að eftir sem áður verðum með rýmstu heimildir fyrir aðstandendur til þess að sækja um dvalarleyfi á öllum Norðurlöndunum. Ekki einu orði vék hann að þessu eða hafði athugasemdir við þessa ábendingu mína.

Hins vegar má ætla eftir umræðuna um hina öfugu sönnunarbyrði hér áðan að þingmaðurinn hefði hugsanlega hugmyndir um að við ættum bara taka upp á Íslandi almenna reglu þess efnis að almennt þegar menn eru að sækja einhver réttindi til stjórnvalda hér þá hvíli bara öfug sönnunarbyrði á stjórnvöldum. Eigum við ekki bara að taka upp þá almennu reglu að þegar einhver sækir um einhver réttindi á grundvelli laganna þá þurfi stjórnvöld að sanna að viðkomandi uppfylli ekki skilyrðin? (Gripið fram í: Sá sannar sem getur.) Staðreyndin er nefnilega sú að í frv. er gert ráð fyrir því að umsækjandinn þurfi að sýna fram á að hann uppfylli réttindin. Málið snýst ekki um neitt annað. Þannig á það að vera. Þannig er eðlilegt að það sé. Það gildir um allar aðrar umsóknir, öll önnur réttindi sem menn sækjast eftir á grundvelli laga og þannig á það líka að vera í þessu frv. og lögum ef frv. verður samþykkt. (Gripið fram í.) Fráleitt er að tala um að það sé ósanngjörn eða ómálefnaleg regla sem er að finna í frv. um þetta atriði.

Að sjálfsögðu stendur ekki til að beita þessum ákvæðum nema þegar undirliggjandi gögn sýna ekki fram á að skilyrðunum sé fullnægt. Og hvaða heimildir hafa þeir sem beittir eru misrétti samkvæmt lögunum? Þeir kæra auðvitað bara ákvörðun Útlendingastofnunar ef þeir eru ósáttir við túlkun hennar á undirliggjandi gögnum og fá endurmetið. Ef þeir eru ósáttir við úrskurð kæruaðilans þá fara þessir aðilar einfaldlega fyrir dómstóla og þar verður þá endanlega metið hvort ómálefnalega sé tekið á umsókninni. Menn komast því ekkert upp með þá valdníðslu sem gefið er í skyn að sé við lýði hér.

Staðreyndin er sú að þetta er í eðlilegum farvegi. Við erum með rýmri reglur í mörgum atriðum en gilda annars staðar. Menn verða að horfast í augu við þetta (Forseti hringir.) þegar þeir tala um að lögin séu fjandsamleg, sem er kolrangt.