Brot á samkeppnislögum

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 13:42:54 (7151)

2004-04-29 13:42:54# 130. lþ. 106.96 fundur 516#B brot á samkeppnislögum# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[13:42]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil fyrst taka fram vegna umræðu um athugasemdir um störf þingsins fyrir hádegi sem í reynd varð um málið, að ég tel mjög ámælisvert að hæstv. ráðherra skuli halda fyrir þinginu skýrslu sem unnin hefur verið um málið. Það er hvimleiður sá siður að bera fyrir sig upplýsingalög í tilvikum af þessu tagi sem eru orðin að einhvers konar anti-upplýsingalögum, þ.e. snúast um rétt til þess að leyna upplýsingum en ekki skyldu til þess að reiða þær fram. Þingmenn hafa sjálfstæðan rétt til að krefja ráðherra svara og veita þeim aðhald. Sá réttur er einstaklingsbundinn. Hann er ekki hjarðréttur og skiptir ekki máli hvaða stærð þingflokka menn tilheyra í þeim efnum. Rétturinn er mjög helgur og ég held að ástæða sé til að forusta þingsins, þetta hef ég margsagt áður, herra forseti, taki það alvarlega hvernig þróunin hefur orðið á síðustu missirum að það gerist æ algengara að menn hreinlega hunsi þennan rétt þingmanna.

Varðandi efni málsins er ákaflega óheppilegt að ekki skuli liggja fyrir skýrar og ótvíræðar reglur um samskipti samkeppnisyfirvalda og lögreglu þegar mál sæta rannsókn. Í aðalatriðum ættu þær að geta verið einfaldar, að samkeppnisyfirvöld héldu áfram og lykju rannsókn á meintum samkeppnislagabrotum fyrirtækja eða lögaðila en lögregla taki við rannsókn sem snýr að meintu refsiverðu athæfi einstaklinganna eða ábyrgð einstaklinga á brotum. Það gengur ekki að færa rannsóknina yfir því samkeppnisyfirvöld verða að geta leitt slík mál til lykta á sínum forsendum og eftir atvikum beitt sektum ef svo ber undir.

Það er mikið áhyggjuefni að ekki skuli hafa tekist að höggva á þennan hnút. Það er áhyggjuefni að Samkeppnisstofnun er að drukkna í verkefnum og allt of mikill dráttur vill verða á því af þeim sökum að málum sé lokið. Síðast en ekki síst er mikið áhyggjuefni, herra forseti, að landið skuli sitja uppi með ríkisstjórn sem aftur og aftur reynist ófær að leysa úr málum af þessu tagi. Hvers konar sleifarlag er þetta að hæstv. ríkisstjórn skuli ekki geta komið þessu frá sér á heilum vetri?