Brot á samkeppnislögum

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 13:45:10 (7152)

2004-04-29 13:45:10# 130. lþ. 106.96 fundur 516#B brot á samkeppnislögum# (umræður utan dagskrár), BjarnB
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[13:45]

Bjarni Benediktsson:

Virðulegi forseti. Það er ljóst af því sem fram hefur komið hjá hæstv. ráðherra að þetta mál er í traustum farvegi. Málið er í skoðun og þingmenn eiga í sjálfu sér engan lögvarinn rétt til að fá til skoðunar frumvarpsdrög. (Gripið fram í: Skýrslu.) Kallað hefur verið eftir því að fá fyrir þingið hugmyndir um hvað menn hyggist fyrir í þessu máli.

Reyndin er sú, hæstv. forseti, að málið er í vinnslu. Um er að ræða ráðherraskipaða nefnd. Þeir ráðherrar sem bera ábyrgð á þeim málaflokkum sem hér skarast eru sammála um að vinna málið áfram og sammála um þær aðgerðir sem gripið var til í haust. Það er enn þá í þeim farvegi.

Menn auðvitað gert athugasemdir við að málið skuli ekki hafa hraðari framgang en raun ber vitni. Ég get í sjálfu sér tekið undir það með hv. þingmönnum að mál þetta þarf að sjálfsögðu að útkljá. En þá skiptir mestu máli að þeir sem með málaflokkinn fara séu sammála um að hraða þeirri meðferð og að málið fái faglega skoðun.

Ég ætla í sjálfu sér ekki að fara út í efnislega umræðu um hvernig þessum málum væri best fyrir komið enda er það atriði ekki sérstaklega til umfjöllunar. Hins vegar vil ég vekja athygli á því að fyrir þinginu liggur þáltill. nokkurra þingmanna Framsfl. um að skipuð verði sérstök nefnd af dómsmrh. sem fái það hlutverk að rannsaka sérstaklega samspil stjórnsýsluviðurlaga og refsiviðurlaga í íslensku réttarkerfi. Það er mál sem snertir m.a. það mál sem var tilefni þessarar umræðu í upphafi. Í sjálfu sér væri ágætt að færa málið í þann farveg ef það ætlar að dragast mikið lengur.