Brot á samkeppnislögum

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 13:49:36 (7154)

2004-04-29 13:49:36# 130. lþ. 106.96 fundur 516#B brot á samkeppnislögum# (umræður utan dagskrár), ÁÓÁ
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[13:49]

Ágúst Ólafur Ágústsson:

Herra forseti. Eftir harðvítugar deilur síðasta sumar milli tveggja lykilstofnana í þjóðfélaginu, Samkeppnisstofnunar og ríkislögreglustjóra, lagði Samfylking fram fullunnið þingmál strax í haust sem hafði að markmiði að eyða þeirri réttaróvissu sem hafði skapast. Þá sögðust ríkisstjórnarflokkarnir vera að vinna að slíku máli en ekkert gerðist og mánuðirnir liðu.

Hv. þm. Bryndís Hlöðversdóttir vakti máls á þessu ástandi fyrir hartnær tveimur mánuðum. Svör hæstv. viðskrh. voru að málið væri í vinnslu enda hefði umræddur starfshópur skilað af sér. Hæstv. viðskrh. orðaði það þannig þá að hún vonaðist til að hægt væri að skila af sér frv. til breytinga á samkeppnislögum á næstu dögum. Hún sagðist hlakka til að kynna málið fyrir þingheimi. En svo liðu tveir mánuðir og ekkert gerðist. Nú á dögunum þegar aftur var vakið máls á þessu ástandi fáum við bréf frá hæstv. viðskrh. um að hún vilji einfaldlega ekki láta þingmenn fá lykilgögn um málið.

Það er ekki bjóðandi að ráðherra haldi eftir mikilvægum skýrslum og gögnum frá umræðunni. Þó erum við og þjóðin öllu vön í þessum efnum hjá ríkisstjórninni. Ríkisstjórnin bregst einfaldlega skyldum sínum með því að bregðast ekki við því óvissuástandi sem nú ríkir varðandi valdmörk Samkeppnisstofnunar og ríkislögreglustjóra. Nú mun annað sumar líða með þau mál í óvissu.

Á sama tíma og þessar deilur geisa milli hæstv. viðskrh. og hæstv. dómsmrh. hlýtur það að teljast neyðarlegt fyrir hæstv. viðskrh. að samflokksmaður hennar, hv. þm. Jónína Bjartmarz, leggur fram þáltill. um að dómsmrh. skuli sjá um könnun á valdmörkum stofnana viðskrh. annars vegar og stofnana dómsmrh. hins vegar.