Brot á samkeppnislögum

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 14:03:25 (7161)

2004-04-29 14:03:25# 130. lþ. 106.96 fundur 516#B brot á samkeppnislögum# (umræður utan dagskrár), viðskrh.
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[14:03]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu. En ég vil halda því fram að ekki ríki neitt ófremdarástand (Gripið fram í.) hvað varðar málefnið sem við ræðum hér því eins og ég lét koma fram í máli mínu eru samkeppnisyfirvöld að rannsaka meint samráð olíufélaganna hvað varðar fyrirtækin og eftir því sem ég best veit er lögreglan einnig að rannsaka málið hvað varðar einstaklingana.

En af því að hv. þingmenn tala um skýrslu vil ég ítreka einu sinni enn að ekki er um skýrslu að ræða (Gripið fram í: Heldur hvað?) heldur drög að frv. (Gripið fram í.) Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sem einnig hefur setið í ríkisstjórn veit ákaflega vel að í sambandi við pólitíska stefnumörkun verður ríkisstjórn að hafa ákveðið svigrúm til að ná niðurstöðu. Hv. þingmenn tala hér eins og einhver sérstök lög gildi um þingmenn hvað þetta varðar. (Gripið fram í.) Það vill svo til að upplýsingalög gilda líka um þingmenn (SJS: Nei, nei.) og jafnvel um hjarðir eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon orðaði það þegar hann talaði um Samfylkinguna. Þó um sé að ræða 20 manna hjörð þá gilda ekki um hana sérstök lög. Það vill svo til.

Hæstv. forseti. Ég ítreka bara að þetta mál verður áfram til umfjöllunar. En það ríkir ekkert ófremdarástand í þjóðfélaginu. Ég vil þó að þarna verði skýrt hvar mörkin liggja á milli þessara mikilvægu stofnana í samfélagi okkar þannig að allir viti hvað er hvurs. Af því að ég reikna nú með því að þessi ríkisstjórn haldi velli tel ég að þegar á haustdögum getum við átt von á frv. á hv. Alþingi sem ég trúi að verði vel tekið því að ég geri ekki lítið úr þeim mikla áhuga sem ríkir á Alþingi í sambandi við samkeppnismál og stuðningur er mikill við Samkeppnisstofnun. (BH: Þá verður líka búið að skipta um mann í brúnni.)