Útlendingar

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 14:06:05 (7162)

2004-04-29 14:06:05# 130. lþ. 106.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, KolH
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[14:06]

Kolbrún Halldórsdóttir:

Herra forseti. Við tökum aftur til við að ræða nefndarálitin vegna breytinga á lögum um útlendinga, nr. 96 frá 15. maí 2002. Ævinlega þegar við komum að þessu máli, herra forseti, hugleiði ég hversu stutt er síðan við lögleiddum þá löggjöf sem hér er verið að breyta og sem við nú keyrum eftir.

Auðvitað hafa verið ýmsir erfiðleikar samfara þessari löggjöf. Við munum vel hversu erfiðlega gekk að ná sáttum um hana á sínum tíma þegar hún fór í gegnum Alþingi hið fyrsta sinni. Í ljós hafa verið að koma ákveðnir gallar á henni sem stjórnarandstaðan taldi sig sjá svo sem við fyrstu yfirferð þeirra mála. Upphaflega frv. var gagnrýnt mjög af stjórnarandstöðunni og mikil vinna var lögð í að reyna að færa þar hluti til betri vegar. Ýmislegt var fært til betri vegar og ýmsu var hent út.

Svo gerist það núna tveimur árum síðar að hæstv. dómsmrh. leggur fram frv. sem í grundvallaratriðum snýr að útlendingum sem koma frá EES-svæðinu eftir að það hefur verið stækkað. Nú er eðlilegt að við innrömmum það og ekki hefur verið neinn ágreiningur í allshn. um að þá breytingu þurfi að gera á lögunum þannig að það sé alveg ljóst. Um það ríkir fullkomin sátt. Þær breytingar þurfa að fara í gegn og í raun þyrfti að samþykkja þær hér í dag. Það gengur reyndar ekki upp vegna þess að hæstv. dómsmrh. vildi með þeim breytingum setja svo margar aðrar breytingar inn í frv., jafnvel breytingar sem hafnað var á sínum tíma fyrir tveimur árum þegar löggjöfin var upphaflega samþykkt. Ég tel því að seinagangurinn í því máli sem við erum að afgreiða hér, þ.e. EES-þætti þessa máls, orsakist af því að hæstv. dómsmrh. vildi setja mjög svo umdeild ákvæði inn í frv. og þar strandar afgreiðsla málsins, þannig að menn séu alveg með það á hreinu ef einhverjum eða einhverju á að kenna um þetta.

Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson hefur farið mjög sköruglega í gegnum nefndarálit minni hlutans. Sú sem hér stendur á einungis áheyrnaraðild að allshn. Ég hef þó setið flesta fundi þar sem farið var yfir málið og er samþykk nefndaráliti minni hlutans. Eins og fram hefur komið í ræðum hv. þm. sem talað hafa í málinu hefur verið mikill ágreiningur um ákveðna þætti þessa máls. Fólk hefur talað um að í því sé fjandsamlegur tónn gagnvart útlendingum og að ríkt hafi ákveðinn þjösnaskapur við að koma þeim breytingum í gegn sem hér eru lagðar til. Talað er um að ásetningur frv. sé óljós og það sé kannski illa samið.

Ég get tekið undir það að ásetningurinn er óljós. Þar af leiðandi hafa komið upp atriði í umfjölluninni í nefndinni sem flokka má undir misskilning. Hv. stjórnarliðar hafa gert mikið úr því að hér sé einungis um misskilning minni hlutans að ræða, misskilning þeirra sem gert hafa athugasemdir við frv., ranghugmyndir fólks og guð veit hvað. En ég vil meina, virðulegi forseti, að misskilningurinn komi upp vegna þess að ásetningurinn er óljós. Jafnvel þó svo að meiri hlutinn hafi nú gefið frá sér nefndarálit og hv. þm. Bjarni Benediktsson, formaður allshn., hafi skýrt ýmsa hluti sem hafa verið til umfjöllunar í nefndinni og fylgt úr hlaði í nefndaráliti þá tel ég samt sem áður að ásetningur stjórnvalda með þessum breytingum sé enn óljós.

Ég gagnrýni og tek undir þá gagnrýni sem hefur komið fram á frv. að við samningu þess var áberandi skortur á samráði við samtök útlendinga. Það er sárgrætilegt að stjórnvöld skuli ævinlega brenna sig á þessu aftur og aftur við samningu frumvarpa sem vitað er fyrir fram að fjalla um viðkvæm mál og kemur til með að verða mikill ágreiningur um. Þá er önugt til þess að vita að stjórnvöld skuli ekki leggja sig betur eftir því en raun ber vitni að eiga samstarf við fólk sem þarf að starfa eftir lögunum eða lögin með einhverjum líkindum þurfa að bitna á. Ég gagnrýni því harðlega, virðulegi forseti, að þegar samið er frv. um útlendinga skuli ekki vera nein aðkoma að gerð eða samningu þess frv. úr röðum útlendinga eða samtaka þeirra. Ég tel hægt að slétta út mikinn misskilning eða ágreining og hægt að ná niðurstöðu um mál ef menn ættu einungis samráð við rétta aðila þegar verið er að semja viðkomandi frumvörp.

Það hefur komið fram í þessari umræðu að dönsku útlendingalögin eru að mörgu leyti fyrirmynd ákveðinna greina í frv. Það hefur líka komið fram --- þar eigum við við 24 ára regluna svokölluðu --- að Danmörk er eina ríkið sem við vitum að hefur samþykkt jafntakmarkandi reglu og þar er á ferðinni.

Í umfjöllun nefndarinnar þegar við vorum að lesa dönsku lögin sem reyndar voru einungis aðgengileg fyrir okkur í enskri þýðingu kom þó í ljós að jafnvel dönsku lögin hvað þetta áhrærir voru kurteislegar orðuð en frumvarpsgreinin sem við höfðum til umfjöllunar og það vill segja að dönsk stjórnvöld sem hafa það að yfirlýstu markmiði að fækka útlendingum sem koma til landsins ganga jafnvel ekki eins langt og hæstv. dómsmrh. í frv. því sem hér er til umfjöllunar. Ef menn eru að tala um að dönsk yfirvöld séu fjandsamleg í garð útlendinga þá er afar neikvætt að þurfa að viðurkenna að íslensk stjórnvöld taka sér þau til fyrirmyndar og ganga jafnvel lengra í tóni eða orðavali eins og við nefndarmenn í allshn. komumst að raun um þegar málið var til umfjöllunar.

Ljóst er að valdheimildir Útlendingastofnunar eru opnar og þær eru óskýrar og það er algerlega óviðunandi að setja löggjöf í gegnum þingið þar sem valdheimildir opinberra aðila eru óskýrar. Hluti af þeim misskilningi sem hefur risið upp og hluti af þeirri kannski miklu neikvæðni sem frv. hefur mátt þola í umfjölluninni er til kominn vegna þess að stjórnvöld og höfundar frv. hafa ekki kært sig um að gera þessar valdheimildir nægilega skýrar og afdráttarlausar. Þetta á t.d. við um mál eins og húsrannsóknir, þ.e. hvort dómsúrskurður eigi að ráða í þeim efnum eða ekki. Það er búið að taka af tvímæli á mörgum stöðum í nefndaráliti meiri hlutans hvað þetta varðar, en upphaflega eru valdheimildirnar óskýrar og ásetningurinn óljós og ég tel ekki öll kurl komin til grafar í þeim efnum. Að mínu mati er ekki búið að leiðrétta þessa hluti nægilega vel til þess að vel megi við una.

Eitt af því sem kom fram við 1. umr. þessa máls var að hv. þm. Atli Gíslason, varamaður minn á þingi í nokkrar vikur, hafði lagt fram á hinu háa Alþingi frv. til laga um breytingu á þessum sömu lögum. Þau er að finna á þingskjali 1068. Málið er númer 719. Frumvarp hv. þm., sem hann flutti ásamt öðrum hv. þm. Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs, gekk út á ákveðna þætti sem hefðu þurft að koma til umfjöllunar við meðferð þessa máls. En að hluta til vegna tímapressu sem á þessu hvíldi varð lítið sem ekkert um þessar hugmyndir hv. þm. fjallað í nefndinni. Nú langar mig að nota tækifærið við 2. umr. og gera á nokkuð greinargóðan hátt grein fyrir þessum hugmyndum. Þeirra er getið nefndaráliti minni hlutans og í máli hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar sem fylgdi því úr hlaði kom fram að þær fylgdu hér með. Þessum hugmyndum hv. þm. Atla Gíslasonar hefur verið dreift. Þeim var dreift við 1. umr. málsins á þingskjali 1203. Þær fylgja sem sagt þessu máli og eru formlega breytingartillögur við frv. hæstv. dómsmrh. og ég fylgi þeim nú úr hlaði með þessari ræðu minni.

[14:15]

Breytingartillögurnar eru í tveimur liðum og þær varða 1. mgr. 11. gr. laganna um útlendinga en þar er gert ráð fyrir að við bætist nýir stafliðir sem gera ráð fyrir því að 13. gr. eða merking hennar breytist því í 13. gr. núgildandi laga er kveðið á um heimild til að veita aðstandendum útlendings sem stundar vinnu á Íslandi dvalarleyfi. Aðstandendur í skilningi ákvæðisins eru maki, sambúðarmaki, samvistarmaki, niðjar yngri en 18 ára og á framfæri viðkomandi og ættmenni hans eða maka að feðgatali og á þeirra framfæri. Lögin áskilja að framfærsla, sjúkratrygging og húsnæði sé tryggt. Þegar niðji útlendings nær 18 ára aldri verður hann hins vegar að uppfylla sjálfur skilyrði um að framfærsla, sjúkratrygging og húsnæði sé tryggt til að fá dvalarleyfi en ella flytja af landi brott. Ungmennið verður með öðrum orðum að stunda vinnu og sýna fram á það með bankainneignum að 12 mánaða framfærsla sé tryggð til að fá dvalarleyfi. Fæst þeirra ungmenna sem um ræðir eða framfærendur þeirra hafa slík fjárráð og séu ungmenni í skóla liggur ekkert annað fyrir þeim en að hætta skólagöngu og jafnvel að flytja af landi brott frá nánustu aðstandendum sínum. Það hljóta því allir að sjá, virðulegur forseti, að slíkum aðstandendum sem ná 18 ára aldri er mismunað að okkar mati með algerlega óboðlegum hætti og því eru þessar breytingar lagðar til.

Önnur tillagan sem hér um ræðir varðar blett á löggjöfinni en það má segja að hann sé mjög lítt sveigjanleg afstaða hennar til þess hvernig sýna má fram á að framfærsla, sjúkratrygging og húsnæði sé tryggt. Það gildir bæði um niðja sem aðra aðstandendur útlendings sem fengið hefur dvalarleyfi eða atvinnuleyfi hér á landi. Dæmi eru um það að útlendingar hafi veigrað sér við að leita félagslegrar aðstoðar og upplýsinga þótt þeir hafi verið í brýnni þörf og jafnvel talið að með því að móttaka húsaleigubætur eða fleiri opinberar greiðslur ættu þeir á hættu að þeim yrði vísað úr landi. Eðli málsins samkvæmt ætti staðfest yfirlýsing útlendingsins, foreldris eða framfæranda að nægja gagnvart niðjum og öðrum nánum aðstandendum í skilningi 13. gr. laganna og jafnsjálfsagt er að lögin heimili það þegar sérstaklega stendur á að framfærslan sé tryggð með félagslegri aðstoð eða með öðrum fullnægjandi hætti. Á þskj. 1203 er lögð til breyting sem um getur í e-lið og er undir 1. tölul. breytingartillagnanna.

Þá er breytingartillögunum líka ætlað að taka á vandamálum sem komið hafa upp í tengslum við það þegar útlendingar, og þá er fyrst og fremst átt við konur, hafa komið til landsins og fengið dvalarleyfi á grundvelli hjúskapar, sambúðar eða samvistar við íslenska ríkisborgara.

Virðulegi forseti. Það eru allt of mörg dæmi þess að konur sem svo háttar um hafi sætt ofbeldi í hjónabandi. Komi til skilnaðar eru þessum konum allar bjargir bannaðar og dæmi eru um að makar þeirra hafi skákað í því skjólinu í sambúðinni með því að gera konunum ljóst að sambúðarslit leiði sjálfkrafa til brottvísunar úr landi. Má segja að konunum sé þannig haldið í nokkurs konar gíslingu. Margar þeirra hafa ekki að neinu að hverfa í heimalandi sínu þar sem þær hafa við flutning til Íslands e.t.v. brennt brýr að baki sér, hver veit? Þessar aðstæður eru í öllu falli óviðunandi og ómannúðlegar í þeim tilvikum þegar konur búa við ofbeldi maka sinna. Þess má einnig geta að allt að 14% kvenna sem leita til Samtaka um kvennaathvarf og Stígamóta eru konur af erlendu bergi brotnar en þær eru 3,75% af konum búsettum í landinu svo allir sjá að um hátt hlutfall er að ræða.

Virðulegur forseti. Leiða má getum að því að fleiri þeirra hafi þörf fyrir aðstoð en þær sem leita hennar. Konur leita kannski ekki aðstoðar vegna vanþekkingar um réttarstöðu sína og af ótta við að þeim verði vísað úr landi sem löggjöfin í sjálfu sér heimilar. Það er eðlilegt að okkar mati að þessum konum sé veitt ákveðin lagaleg vernd og fái dvalarleyfi og síðar búsetuleyfi hér á landi og að tryggja megi framfærslu, sjúkratryggingu og húsnæði með félagslegum atbeina eða öðrum fullnægjandi hætti. Þannig er jafnrétti fyrir lögunum, vernd gegn mismunun og félagslegt öryggi tryggt í anda alþjóðasamnings nr. 10/1979, um efnahagsleg, félagsleg og menningarleg réttindi.

Greina má frá því hér að þegar hv. þm. Atli Gíslason samdi frv. sem þessar breytingartilögur eru í raun og veru reistar á leitaði hann ráðgjafar og upplýsinga hjá Alþjóðahúsi. Lögfræðingur þess, Katla Þorsteinsdóttir, sem kom reyndar á fund nefndarinnar við umfjöllun um þessi mál, staðfesti allt það sem fram kemur í greinargerð með frv. hv. þm. Atla Gíslasonar. Sömuleiðis staðfestir þau sjónarmið bréf sem fylgir frv. sem fylgiskjal, sem fjallar um skuggahliðar nútímafólksflutninga og er frá Stígamótum, Kvennaathvarfinu, Félagsþjónustunni í Reykjavík, Rauða krossi Íslands og Alþjóðahúsinu. Ég tel því að þær breytingartillögur sem eru á þskj. 1203 séu afar mikilvægar fyrir velferð útlendinga í landinu og fyrir réttindi þeirra þannig að það sé eðlilegt að þær séu fluttar í þessari kippu þegar verið er að fjalla um slík málefni útlendinga á annað borð.

Virðulegur forseti. Eitt er það sem fengið hefur talsvert mikla umfjöllun í umræðunni en það er hin svo kallaða 24 ára regla og það sem lýtur að hugsanlegum eða meintum nauðungarhjónaböndum og sömuleiðis hefur alþjóðleg glæpastarfsemi eins og mansal borið á góma. Það er alveg ljóst að við sem skipum minni hlutann í allshn. erum tilbúin til að gera allt sem í okkar valdi stendur til að berjast gegn skipulegri alþjóðlegri glæpastarfsemi. Það sannast auðvitað á þeim þingmálum sem flutt hafa verið af hálfu stjórnarandstöðunnar á yfirstandandi þingi að við berum hag fórnarlamba slíkra glæpamanna sannarlega fyrir brjósti og það er óhætt að vísa frá harkalega öllum ásökunum um annað. Það er hins vegar alveg ljóst að við sem stöndum að áliti minni hlutans teljum þær aðferðir sem meiri hlutinn leggur til að verði beitt, eins og hv. þm. Bjarni Benediktsson lýsti þegar hann flutti ræðu sína áðan, séu ekki vænlegar til árangurs, þær séu ekki réttar aðferðir, þær tryggi ekki það sem meiri hlutinn telur að þeim sé ætlað að tryggja. Við styðjum okkar mál rökum samtaka útlendinganna og ég get nefnt umsagnir sem nefndinni hafa borist, t.d. athugasemdir frá Rauða krossi Íslands sem sendi okkur mjög gagnorða umsögn. Sérstaklega má kannski tala um umsögnina sem lýtur að 4. gr. frv., en 4. gr. er ætlað að rýmka þann tíma sem yfirvöld hafa til þess að hefja rannsókn svo þau geti beitt ákvæðum laganna um frávísun. Það er kannski atriði sem ekki hefur verið fjallað mikið um í umræðunni nú þegar en það er ákvæði sem Rauði krossinn hefur miklar áhyggjur af því hann segir að almennt séð verði að telja það mjög bagalegt að rannsókn mála dragist og hugsanlegt sé að ákvæðið leiði til þess að rannsókn hefjist síðar en ella. Segir, með leyfi forseta, í athugasemdum Rauða kross Íslands við frv.:

,,Þrátt fyrir þetta ákvæði er engu að síður til staðar heimild til þess að brottvísa útlendingi í ólöglegri dvöl, sbr. 5. gr. frv., en sú heimild var ekki fyrir hendi.``

Breytingin tengist 5. gr. frv. um heimild til brottvísunar útlendinga í ólöglegri dvöl og segir Rauði krossinn að hún kunni sérstaklega að bitna á hælisleitendum sem nær undantekningarlaust dveljast ólöglega í því landi sem þeir koma til og sækja um hæli í. Og það er alveg ljóst í umsögn Rauða krossins að hælisleitendur og réttindi þeirra eru ekki tryggð með því frv. sem hér um ræðir og þeim greinum sem geta lotið að réttindum hælisleitanda. Sama má segja um umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands. Hún er mjög alvarleg, og af því að ég vék hér að skipulegri glæpastarfsemi finnst mér nauðsynlegt að vitna til umsagnar mannréttindaskrifstofunnar sem gerir mjög alvarlegar athugasemdir við margar greinar frv. en ekki hvað síst við 16. gr. sem varðar breytingu á 56. gr. laganna. Mannréttindaskrifstofa Íslands gerir athugasemdir við þau ákvæði sem varða málamyndahjónaböndin og vekur athygli okkar á því að í 31. gr. flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna sem kveður m.a. á um það að flóttamenn sem koma eða dvelja ólöglega í landinu skuli ekki sæta refsingu af því tilefni. Þá verði að skoða Palermo-samning Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir gegn skipulagðri alþjóðlegri glæpastarfsemi. Þekkt eru þau tilvik þar sem einstaklingar með falsað vegabréf, skilríki eða vegabréfsáritun eru í raun fórnarlömb skipulagðrar alþjóðlegrar glæpastarfsemi eða verslunar með fólk. Í slíkum tilfellum, segir Mannréttindaskrifstofa Íslands, sé einkum um að ræða konur og börn sem annaðhvort er rænt frá heimaslóðum sínum eða þau blekkt með loforðum um betra líf í öðru landi. Aðstæður fólks á upprunaslóðum eru þá iðulega svo ömurlegar og örbirgðin svo mikil, segir í umsögn Mannréttindaskrifstofu Íslands, að fólk kemur sér sjálfviljugt á milli landa með aðstoð þeirra sem fyrir mansalinu standa í þeirri von að treysta megi þeim samningum eða fyrirheitum sem gefin voru. Það skýtur því skökku við að refsa fórnarlömbum slíkrar alþjóðlegrar glæpastarfsemi fyrir þjáningar sínar og enn erfiðara gæti orðið að upplýsa þau alvarlegu brot sem lúta að verslun með fólk ef þolendur eiga von á allt að tveggja ára fangelsi fyrir það sem kallað eru brot.

Svo halda mannréttindasamtökin áfram að vekja athygli okkar á því að Palermo-samningurinn gerir ráð fyrir að fórnarlömb slíkrar alþjóðlegar glæpastarfsemi njóti verndar og aðstoðar. Í því sambandi langar mig til að minna á mál sem liggur fyrir þinginu og við flytjum saman, hv. þm. Hlynur Hallsson, Þuríður Backman og ég, og fjallar einmitt um fórnarlamba- og vitnavernd og byggir á þeim ákvæðum Palermo-samningsins sem mannréttindaskrifstofan er að vekja athygli okkar á. Það vill svo til að það frv. er á dagskrá þingsins í dag og ég geri ráð fyrir að ef ekki vinnst tími til að ræða málið ítarlega fari það til nefndar án umræðu og verði sent út til umsagnar og hægt verði að vinna það í nefnd næsta haust. Það má segja að ákvæði í því frv. lúti að réttindum þeirra sem eru fórnarlömb glæpamanna sem versla með konur og börn, ekki hvað síst til kynlífsiðnaðar. Það skiptir verulegu máli að við förum eftir þeim tilmælum sem koma fram í Palermo-samningnum og við höfum skuldbundið okkur til að fara eftir þó svo að dregist hafi að fullgilda hann á Alþingi Íslendinga. Auðvitað verðum við að fara að reka á eftir því að fullgilda þann samning, og það höfum við gert í stjórnarandstöðunni, og það hlýtur að koma að því fyrr en síðar og þá hefur samningurinn lagalegan status hér á landi og þörf á því að breyta lögum í samræmi við hann. Það er því miður ekki verið að gera í þessu frv. Það hefði verið betra ef svo hefði verið því að ég tel orðið mjög tímabært að við setjum í lög ákvæði sem á öflugan hátt geta gagnast fórnarlömbum glæpamannanna og geta þá verið lóð á vogarskálina í að uppræta þá skelfilegu glæpi sem framdir eru á konum og börnum, sérstaklega eins og ég sagði með því að selja fólk á milli landa í kynlífsiðnað.

Virðulegur forseti. Ég hef gert grein fyrir sjónarmiðum mínum í málinu. Ég tel að margt hefði betur mátt fara og verst af öllu þykir mér að dönsku lögin skuli vera fyrirmynd hér þar sem vitað er að þar er nú við völd ríkisstjórn sem hefur það að yfirlýstu markmiði að fækka innflytjendum og mér finnst skipta máli að við tökum upp aðra siði. Við gerum okkur grein fyrir því að við þurfum á útlendingum að halda. Það skiptir okkur máli að taka vingjarnlega og vel á móti þeim og þar með erum við ekki að segja að verið sé að opna fyrir einhverja misindismenn eða glæpastarfsemi eða fólk sem er fórnarlömb glæpasamtaka eða annarra sem eru að brjóta á þeim rétt. Hér hefði því margt mátt betur fara, frú forseti, þó að ég viðurkenni að breytingartillögur sem meiri hluti nefndarinnar lagði fram séu til bóta í ýmsu tilliti.