Útlendingar

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 14:30:31 (7163)

2004-04-29 14:30:31# 130. lþ. 106.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, Frsm. meiri hluta BjarnB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[14:30]

Frsm. meiri hluta allshn. (Bjarni Benediktsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. vék í upphafi máls síns að því að ófullnægjandi samráð hafi verið haft við útlendinga vegna málsins. Ég vil því vekja athygli á því að málið fór mjög víða til umsagnar og við funduðum með fjölmörgum aðilum sem telja sig málið varða. Við undirbúning mála af þessu tagi verður að hafa í huga að takmörk eru fyrir því hversu víðtækt samráð er hægt að hafa. Þegar fyrir liggur að í ákveðnum atriðum er verið að þrengja rétt þeirra sem hingað vilja koma er ekki við öðru að búast en að slíkir aðilar hafi athugasemdir við frv. en þær fengu allar að komast að við meðferð málsins.

Gerð hefur verið sérstök athugasemd við það að frv. hafi ekki verið jafn kurteislega orðað og dönsku lögin og því haldið fram af hv. þm. að dönsku lögin gangi ekki jafn langt, a.m.k. ekki í tóni eða orðavali. Samt sem áður eru Danir í mörgum tilvikum með þrengri skilyrði t.d. fyrir aðstandendur til að koma til Danmerkur en munu gilda verði frv. að lögum.

Ég er ósammála því að þær valdheimildir sem snerta húsrannsóknir eða aðrar valdheimildir þeirra sem fara með þessi mál hafi verið óskýrar eða tilgangur þeirra eitthvað óljós í frv. eða lögunum hingað til, en í tilefni af framkomnum athugasemdum er engu að síður mælt með því að orðalagi verði breytt.

Að lokum vil ég segja um frv. sem var lagt fram af hv. varaþingmanni Atla Gíslasyni, að við lögfestingu þess værum við að ganga gegn því meginmarkmiði að lögin hér séu í samræmi við það sem tíðkast í nágrannalöndunum.