Útlendingar

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 14:32:47 (7164)

2004-04-29 14:32:47# 130. lþ. 106.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, KolH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[14:32]

Kolbrún Halldórsdóttir (andsvar):

Frú forseti. Varðandi síðasta atriðið í ræðu hv. þm. sé ég ekkert því til fyrirstöðu að Íslendingar gangi á undan nágrannalöndum sínum með góðu fordæmi ef hægt er. Hins vegar tel ég eðlilegt að við höfum samráð við nágrannalöndin. Við vitum sem er að þau fara ólíkar leiðir í þessum málum. Ég fullyrði að Danir eru að þrengja löggjöf sína meira en góðu hófi gegnir og mér þykir mjög miður að íslensk stjórnvöld skuli endilega leita í smiðju þeirra í þessum efnum.

Varðandi það að ekki hafi verið haft nægilegt samráð talaði ég um það í ræðu minni að það hefði fyrst og fremst verið á þeim tíma sem verið var að semja lögin. Þá var haft samráð við opinberar stofnanir, Útlendingastofnun, ríkislögreglustjóra, lögreglustjórann á Keflavíkurflugvelli, en einskis var leitað hjá Samtökum útlendinga. Það er ámælisvert. Auðvitað fengu síðan öll samtökin að koma að málinu þegar það var í meðförum nefndarinnar. Ég get hælt hv. þm. Bjarna Benediktssyni fyrir það að hann hafði opið hús fyrir gesti og við fengum fína gesti og fínar umræður um málið í nefndinni. Við það stig er ekkert að athuga. Hins vegar fengum við gífurlega alvarlegar athugasemdir og að mínu mati hafa sárafáar þeirra náð inn í brtt. meiri hluta nefndarinnar.

Ég hefði viljað sjá okkur taka mun alvarlegar á þeim athugasemdum sem við fengum, vegna þess að fólk leiddi virkilega góð rök að því að hér væri verið að þrengja skilyrðin svo mikið að þau væru farin að ganga á þann almenna rétt sem gildir í landinu, t.d. er varðar hjúskap. Þar var talað um mannréttindasáttmála Evrópu sem verndar hjúskapinn. Að mati þeirra sem best þekkja til mannréttindamála gengur frv. á svig við mannréttindasáttmála Evrópu hvað þetta varðar. Mér finnst meiri hlutinn ekki hafa komið fram með sannfærandi rök sem mælir gegn þeirri gagnrýni sem við höfum fengið á þessi mál.