Útlendingar

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 14:39:49 (7167)

2004-04-29 14:39:49# 130. lþ. 106.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, GÖg
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[14:39]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Frú forseti. Ég ætla að koma með nokkur innlegg í umræðuna um frv. til laga um breyting á lögum um útlendinga, nr. 96/2002, nál. Ég vil að hv. þm. taki eftir því að þó ekki sé um gömul lög að ræða, tæpra tveggja ára gömul, eru samt sem áður þegar komnar breytingar á þeim.

Ágúst Ólafur Ágústsson fór mjög vel yfir nál. minni hlutans og ritar hann allur undir það.

Ýmislegt hefur verið lagað í nefndinni þó svo að á engan hátt sé gengið nægjanlega langt að okkar mati. Það hefði átt að gera það sem talað var um í upphafi og ég veit að það hefur verið megn óánægja með að það var ekki gert. Það átti að koma inn með EES-málið og geyma hitt. Það er algjörlega á hreinu að obbinn af því sem er ritað í frv. hefði þurft miklu meiri skoðun ásamt fleiri hlutum. Það er fullt af hlutum sem þarf að skoða í löggjöfinni þó hún sé ekki eldri en hún er. Til dæmis þarf að skoða að setja málaflokkinn undir eitt ráðuneyti. Hann er núna undir tveimur ráðuneytum, bæði félmrn. og dómsmrn. Eitt af forgangsmálunum er að setja hann undir einn hatt, setja faglega vinnu í málið.

Einnig vantar ákveðna heildarstefnumótun á milli ráðuneytanna af því að undirstofnanir koma líka að málinu og afar mikilvægt að leiða hesta alls þessa fólks saman. Úr því að verið var að fara í þessar breytingar átti líka að kalla til fólk sem málið varðar að samningu frv. Það átti að kalla til Mannréttindaskrifstofu og Alþjóðahús. Annað eins hefur verið gert að mig minnir í mörgum öðrum frv. Það hafa meira að segja komið tilbúnar umsagnir á fyrri stigum í ýmsum frv. sem hafa verið unnin í þinginu. Það var ekkert samráð og ég harma að enn á ný þurfi að vera að þrasa um hluti sem hefði verið hægt að koma í veg fyrir.

Mér finnst að það eigi að vera skýlaus krafa um að endurskoðun fari fram á málinu og heildarstefnumótun um að setja málaflokkinn undir einn hatt. Það eru flestallir hv. þm. sammála því. Það er bara spurning hvort hann eigi að fara undir félmrn. eða dómsmrn. Ég er ein af þeim sem tel að það væri ákveðin gæfa fyrir málaflokkinn að fara undir félmrn. til þess að taka af því lögreglu- og eftirlitsstimpilinn þrátt fyrir náið samstarf við lögreglu sem er afar mikilvægt líka. Ekki skal tekinn upp hanskinn fyrir þá sem eru hér í glæpsamlegum tilgangi, af og frá. Það mun ég aldrei gera.

Við erum sí og æ að tala um að við eigum að sækja fyrirmyndir til Norðurlandanna. Þetta var talsvert rætt þegar við vorum með stóra útlendingafrumvarpið. Auðvitað á þá að taka Útlendingastofnun og setja hana á sama plan og aðrar útlendingastofnanir á Norðurlöndunum. Það er mjög ólíku saman að jafna hvernig stofnunin er hér miðað við þar. Þar getum við t.d. lesið sennilega alla úrskurðina á netinu. Þar er nefnd yfir Útlendingastofnun sem í sitja Rauði krossinn, mannréttindasamtök o.s.frv. þar sem farið er yfir það sem er að gerast hjá stofnuninni, vegna þess að allir eru mjög meðvitaðir um að málaflokkurinn er afar viðkvæmur og mjög mikilvægt að hann sé unninn í samráði við útlendingasamfélagið þannig að ekki sé komið með óþarfa viðbótarherðingar og reynt er að mæta fólki á þeirra forsendum.

Danir eru með eina opinbera stofnun sem heitir Etnisk Råd. Þar hefur verið unnin gríðarlega mikil og góð fagvinna. Ég vil benda þeim á sem vilja kynna sér þessi mál á heimasíður embættanna því þær eru afar fróðlegar. Þar koma fram upplýsingar um öll frv. sem eru í vinnslu t.d. í þinginu er varða á einn eða annan hátt útlendinga, hvert þau eru send til umsagnar og hvar þau eru stödd o.s.frv. Það hvílir því mjög mikil upplýsingaskylda á útlendingastofnunum Norðurlandanna gagnvart útlendingasamfélaginu. Það vildi ég gjarnan sjá hér.

Úr því að verið var að koma með einhverjar breytingar, sem ég nefndi áðan að hefði ekki átt að koma með, hefði mér fundist að það hefði átt að skoða málið heildstætt. Við áttum ekki að taka inn það sem búið var að henda út eftir mikla umræðu í hv. allshn. fyrir þremur árum eins og DNA og fleira.

[14:45]

Mér finnst það ekki skapa þinginu góða ásýnd að við skulum alltaf þurfa að þrátta um hluti sem hægt væri að gera í mun meiri sátt, m.a. við útlendingasamfélagið í landinu sem verið hefur okkur til mikillar gæfu.

Mig langar sérstaklega að gera tvö atriði í frv. að umtalsefni. Annars vegar 24 ára regluna og hins vegar það sem varðar DNA-sýnin. Mig langar líka að benda á það, ef þingmenn skyldu ekki átta sig á því, að löggjöf okkar varðandi atvinnuleyfi og annað er allt öðruvísi en annars staðar á Norðurlöndunum. Hér eru atvinnuleyfin á hendi fyrirtækjanna. Þau eru ekki á hendi einstaklinganna. Það er kannski grundvallarmunurinn á löggjöf hinna Norðurlandanna og okkar. Ég þori ekki alveg að fullyrða hvernig þetta er í Finnlandi. Það gæti verið að þeir hefðu svipaðar reglur og við. En það er afar mikilvægt að við höfum þetta í huga. Af því við erum með þetta allt niðurneglt gagnvart vinnuveitendum þá höfum við ekki haft eins miklar þörf á því að setja skilyrði um dvalarleyfi í löggjöf okkar og sumar aðrar þjóðir. Það er ein af ástæðunum.

Mig langar að fjalla aðeins um 24 ára regluna. Ég veit ekki hvort þingheimur gerir sér grein fyrir því hversu margir Íslendingar eru á aldrinum 18--24 ára. Þeir eru hvorki meira né minna en 30 þúsund, eiginlega jafnmargir af hvoru kyni. Með þessu frv. eru hert skilyrði sett gangvart þessum aldurshópi til að vernda hagsmuni sem ég tel að hægt væri að vernda ríkulega með öðrum aðferðum. Bara með lögleiðingu Palermo-samningsins. Við erum búin að lögleiða hann að hluta, búin að undirrita hann. En ef við tækjum t.d. upp vitnaverndina og lögleiddum hana, við þyrftum ekki sérstök frumvörp hér í þinginu um það, þá hefðum við náð afar langt í mansalsmálum. Sú sem hér stendur þekkir það. Ég er upphafsmanneskja þess að þessi mál voru rædd á hinu háa Alþingi. Enginn hafði heyrt talað um mansal fyrr en ég tók þá umræðu upp fyrir þremur árum. Ég hef talað víða um heim um þessi mál og mér virðist þessi regla ekki koma til með að veita vernd gegn mansali. Með því að klára að lögleiða Palermo-samninginn mundum við hins vegar ná afskaplega langt. Við gætum líka hert löggjöf okkar að því leyti, bæði hegningar og bætt meðferð opinberra mála til þess að ná til þeirra sem brjóta á öðrum manneskjum með þeim hætti.

Það er ekki að ósekju að ungliðahreyfingar allra stjórnmálaflokka, þar er enginn stjórnmálaflokkur undanskilinn, skuli taka þetta mál upp og berjast gegn því að slík regla verði leidd í lög. Það er vegna þess að þetta varðar einmitt ungmennin sjálf. Við skulum ekki gleyma því að fjöldi þeirra landa sem verða undanþegin eykst. Eftir því sem Evrópusambandið stækkar meira, þeim mun færri lönd verða eftir í þeim pakka sem þetta varðar.

Það er algengt að námsmenn í Bandaríkjunum kynnis mökum sínum þar. Þá verða menn rétt að vona að þeir séu orðnir 24 ára þegar þeir vilja koma heim með unnustu sína eða unnusta sinn. Ég bendi á mjög skemmtilega grein í Morgunblaðinu í dag eftir varaformann ungra framsóknarmanna. Hann fer yfir þetta og segir að vísu sjálfur að hann ýki frásögn sína dálítið til að fólk átti sig á þeim vandamálum sem upp geta komið þegar fólk vill giftast ástinni sinni og flytjast með henni heim til Íslands. Í því sambandi hefur verið nefnd jafnræðisregla stjórnarskrárinnar og þarf ekki að tíunda það.

Mér finnst í raun grátlegt til þess að vita að við skulum ætla að setja slíkt í lög. Þegar Danir settu þetta í lög og byrjuðu á að setja mörkin við 28 ára aldur, eins og hv. þm. Bjarni Benediktsson upplýsti, voru þeir svo sannarlega ekki að hugsa um mansal. Því get ég lofað ykkur. Það var mjög gaman að fylgjast með þeim umræðum. Það kom aldrei upp á borð hjá Dönum. Aldrei. Við megum heldur ekki gleyma því, þótt það hafi ekki endilega verið góð rök fyrir lagasetningu Dana, að á Íslandi er allt annað útlendingasamfélag en í Danmörku. Þar er samfélag útlendinganna öðruvísi. Þar hefur líka komið í ljós að stúlkur, sem menn hafa hugsanlega talið sig geta verndað með þessu ákvæði, eru bara sendar úr landi og látnar ganga í nauðungarhjónabönd í heimalandinu, þótt þær hafi alla sína tíð búið í Danmörku. Það er mjög sorglegt til þess að vita. Ýmsir, t.d. Etnisk Råd og aðrir, hafa reynt að berjast fyrir því að mikilvægt sé að halda þeim í landinu til að vernda þær.

Auðvitað er að mörgu að hyggja. Þetta eru alvarleg mál og fremur spurning um hegningarlöggjöf okkar. Við ættum jafnvel frekar að styrkja stöðu þeirra sem brotið er á þeim megin en láta þessi ákvæði ganga á hlut ungs fólks vegna örfárra mála. Ég held að við ættum að reyna að skoða það. Það er alla vega mín bjargfasta skoðun.

Við þekkjum öll umræðuna um lífsýnin. Það er búið að fara vel yfir það í nefndinni. Það skal ég játa. Það verður líka að segjast að það hefur alla tíð einkennt umræðuna í hv. allshn. að þar er málefnaleg og góð vinna í gangi þótt nefndarmenn séu ekki alltaf sammála. Það ber að hrósa formanni nefndarinnar, Bjarna Benediktssyni, fyrir góð vinnubrögð.

Þegar við skoðum ákvæðin um lífsýnin, sem var hent út á sínum tíma og komu ekki inn aftur þegar útlendingafrumvarpið kom endurnýjað ofan úr ráðuneyti, þá sjáum við að það væri strax skárra ef við gerðum eins og Danir, Finnar og Norðmenn, sem eru ekki einu sinni með þetta í lögum sínum en hafa ákveðnar reglur og bjóða upp á slíka möguleika til þess að fólk geti sannað hvaðan það kemur vegna erfiðleika við að fá vottorð frá heimalandi. Það er allt önnur nálgun en var í upprunalega textanum. Ég verð einnig að játa að textinn hefur lagast aðeins en alls ekki nægjanlega.

Norðmenn hófu að setja slíkar reglur vegna þess að þeir fengu stóran hóp af fólki frá Sómalíu. Það varð til þess að þeir urðu að finna ráð til að sanna fjölskyldutengsl, erfiðleikar í heimalandinu buðu ekki upp á að fólkið hefði fæðingarvottorð. Það er líka eðlilegt, ef fólk vill sanna hvaðan það er, að það geti gert það með DNA. Í morgun var bent á það, eins og einnig var gert í nefndinni, að ekki er alltaf ljóst hvað kemur út úr DNA-rannsókn. Ýmsir annmarkar geta verið á því. Þar getur verið um kjörbörn að ræða, börn utan hjónabands, rangfeðruð börn, tæknifrjóvgun o.s.frv. Þannig er ekki allt fengið með blessaðri tækninni þótt við gjarnan vildum hafa það svo.

Ég minni á að Norðmennirnir kynna þessi mál á heimasíðu sinni. Ég bendi þingmönnum á að fara inn á þá heimasíðu. Þar kemur skýrt fram hvernig málum skuli háttað varðandi lífsýnin. Þeir láta t.d. rannsaka DNA-sýnin í Englandi. Þar kemur skýrt fram hverjir eiga að rannsaka sýnin, hvert eigi að senda þau o.s.frv. Þar kemur líka fram að í öllum sendiráðum þeirra í borgum og löndum sem eiga við erfiðleika að stríða varðandi slík sönnunargögn, við getum nefnt Kabúl, Addis Ababa, Nairóbí og fullt af löndum sem það á við, Írak, Afganistan o.s.frv., er boðið upp á þjónustu hvað þetta varðar. Upp eru talin fjölmörg sendiráð sem bjóða upp á slíka þjónustu og að sjálfsögðu á kostnað norska ríkisins. Þannig er það hjá Norðmönnum.

Þannig er málum einnig háttað hjá Dönum. Skoðunin er á þeirra eigin kostnað en ekki þeirra sem krafist er DNA af. Hið sama gildir í Finnlandi og það skýr ákvæði eru hjá Finnum um hvernig eigi að fara með DNA og hver eigi að taka það. Það er einnig algjörlega skýrt á heimasíðu þeirra. Þar er skýrt að stofnun á borð við lýðheilsustöð hjá okkur sjái um allar DNA-sýnatökur og rannsókn á sýnunum. Að því verður að koma fagmaður, heilbrigðisstarfsmaður. Þetta er samkvæmt 66. gr. finnskra laga um útlendinga.

Hefðum við náð að koma á aðeins mildari blæ á ákvæði þessa lagafrv. þá hefði komið fram hver ætti að framkvæma, hver ætti að geyma sýnin o.s.frv. Það var ekki gert. Mér finnst þetta of stórt mál til að hafa það bara í reglugerð. Þarna er að mörgu að hyggja.

Í kjölfar þessa aukna eftirlits og ítarlegri viðtala vegna þeirra sem hyggjast gifta sig eða eru giftir og þurfa að bíða t.d. verður athyglisvert að sjá hvort ekki verði veruleg aukning í starfsmannahaldi hjá Útlendingastofnun. Það er spurning hvort ekki þurfi að ráða fleiri starfsstéttir að Útlendingastofnun. Ég hef talað fyrir því að á Útlendingastofnun yrðu ráðnir fleiri ráðgjafar, bæði félagsráðgjafar og aðrir sem tengjast málum sem sinnt er innan þeirrar stofnunar.

Eins og ég nefndi í upphafi, af því að ég sé að hæstv. dómsmrh. er kominn í salinn, er afar mikilvægt að dregnar verði skýrari línur og reynt að ná meiri breidd innan Útlendingastofnunar og þeirrar vinnu sem þar fer fram. Við viljum alltaf miða okkur við það besta. Því væri ekki úr vegi að gera eins og allar norrænar þjóðir, að setja Útlendingastofnun í sérstakan ramma, undir sérstaka stjórn þar sem úrskurðir eru opinberir. Það væri mikill fengur í því. Þar með væri stofnunin gegnsærri og minna vandamál ef eitthvað kæmi upp. Þannig verður minni styr um málin og allt uppi á borðum. Ég held að það væri afar mikilvægt í svo viðkvæmum málum.

Nú hef ég tæpt á því helsta. Ég sé ekki ástæðu til að tæpa á öllu því sem sagt hefur verið en minni á hve stóran hóp málið varðar. Þótt þeir séu ekki margir þegar til kastanna kemur þá er hins vegar ljóst að 18--24 ára Íslendingar eru hvorki meira né minna en 30 þúsund. Við gætum skoðað hve margir íslenskir námsmenn eru í Bandaríkjunum. Þetta varðar þá kannski sérstaklega. Ég veit ekki til þess að Bandaríkjamenn séu með svo stranga reglu varðandi leyfin og græna kortið. Ég læt þetta nægja í bili, virðulegur forseti.