Útlendingar

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 15:03:04 (7172)

2004-04-29 15:03:04# 130. lþ. 106.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, GAK
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[15:03]

Guðjón A. Kristjánsson:

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að taka fram í upphafi máls að við í Frjálsl. styðjum minnihlutaálitið sem hér hefur verið farið yfir af tveimur síðustu ræðumönnum og þar áður yfir breytingartillögur.

Það er einkum þrennt sem ég ætla að víkja að í málinu og ég ætla ekki að endurtaka mikið umræðuna sem hér fór fram. Í fyrsta lagi er það skilyrðið að útlendingar skuli vera 24 ára til að fá dvalarleyfi á grundvelli giftingar. Ég tel að það sé óásættanlegt að mismuna fólki með þeim hætti. Um það að stofna til hjúskapar eigi að gilda hið almenna ákvæði um 18 ár og skilyrði um 24 ára aldur maka þegar sótt er um dvalarleyfi hér eigi ekki við og sé óeðlilegt að setja það inn í löggjöfina. Það er skoðun mín og ég tel að ekki eigi að mismuna útlendingum að þessu leyti þegar sótt er um dvalarleyfi.

Ég vil einnig víkja að 66 ára aldurstakmarkinu. Þegar fólk kemur til landsins og ætlar að stunda atvinnu þarf það að fá atvinnuleyfi. Það ætti að nægja að halda þeirri kröfu almennt varðandi atvinnuleyfið að mínu viti. Ég tel því að þetta ákvæði sé óþarft þegar talað er um nánustu vandamenn.

Síðan vil ég víkja aðeins örstutt að lífsýnaákvæðinu. Ég lét þá skoðun í ljós í hv. nefnd að ég teldi að ef krafan um lífsýnaákvæðið væri inni ætti hún að vera með þeim hætti að viðkomandi útlendingur legði fram lífsýni til þess að sanna, ef hann kysi svo, fjölskyldutengsl sín en ekki ætti að heimila það að Útlendingastofnun gerði kröfu um lífsýnið.

Þessi þrjú atriði tel ég að séu til mikilla bóta eins og lagt er til í breytingartillögum okkar. Ég er andvígur frv. eins og það er lagt fram og tel að það sé ekki eðlilegt að gera þær kröfur sem þar eru gerðar. Frumvarpið er að öðru leyti staðfesting á EES-gerðum að því er varðar stækkun Evrópusambandsins.