Útlendingar

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 15:08:34 (7173)

2004-04-29 15:08:34# 130. lþ. 106.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, SKK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[15:08]

Sigurður Kári Kristjánsson (andsvar):

Frú forseti. Mig langar til að víkja að einu atriði sem kom fram í ræðu hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar en það var varðandi hina meintu mismunun annars vegar erlendra ríkisborgara og hins vegar íslenskra að því er viðkemur hjúskap.

Það er ekki svo samkvæmt frv. að verið sé að setja það hjúskaparskilyrði gagnvart erlendum ríkisborgurum að þeir þurfi að vera 24 ára til þess að hjúskapur þeirra teljist gildur að íslenskum lögum. Það er alveg ljóst að það hjúskaparskilyrði um aldur sem gildir í íslenskum hjúskaparlögum mun gilda hér eftir sem áður. Erlendir ríkisborgarar munu geta gift sig hvort sem frv. verður að lögum eða ekki. Það sem máli skiptir er það að með þessari reglu er einungis verið að girða fyrir það að hjúskapur einn og sér veiti sjálfstæðan dvalarleyfisrétt á Íslandi. Það þýðir hins vegar ekki að þeir sem eru giftir og undir 24 ára aldri geti ekki sótt um dvalarleyfi á Íslandi. Þeir geta gert það eftir sem áður. En þeir geta þá gert það á eigin forsendum, persónulegum forsendum. Það kemur fram í nál. meiri hlutans að auðvitað skoðist það viðkomandi leyfisumsækjanda til tekna sé hann í gildum hjúskap með Íslendingi. Ég tel því að verið sé að gera allt of mikið úr þessu atriði í umræðunni og að mörgu leyti sé þetta ákvæði frv. annaðhvort misskilið eða rangtúlkað.