Útlendingar

Fimmtudaginn 29. apríl 2004, kl. 15:10:42 (7175)

2004-04-29 15:10:42# 130. lþ. 106.1 fundur 749. mál: #A útlendingar# (aðlögunarheimildir stækkunarsamnings ESB og EES o.fl.) frv. 20/2004, GAK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 106. fundur, 130. lþ.

[15:10]

Guðjón A. Kristjánsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tel vera mikinn mun á því hvort orðalag varðandi lífsýnatökuna sé þannig orðað að það sé innflytjandinn sem eigi rétt á því að leggja til lífsýni, ef hann kýs svo, eða að gerð sé krafa um það. Ef hann vill ekki gangast undir það að leggja fram lífsýni verður það væntanlega ekki talið honum til tekna varðandi umsóknina við afgreiðslu stjórnvalda.

Almenna reglan ætti auðvitað að vera sú að það ætti að vera nægjanlegt fyrir hvern og einn að leggja með sér gögn um skyldleika sinn, fæðingarvottorð o.s.frv., en ég tel hins vegar að það eigi að snúa þessu við og útlendingurinn eigi að hafa þann rétt að leggja með sér lífsýnið ef hann vill sanna fjölskyldutengsl sín.